VITT heitir nýr sjúkdómur sem valdið hefur mörgum af þeim banvænum blóðtöppum sem fengið hafa Dani til að hætta alfarið notkun AstraZeneca bóluefnisins gegn COVID-19.
Af þessari ástæðu er það rétt ákvörðun hjá dönskum yfirvöldim að hætta að bólusetja með AtstraZeneca hefur danska sjónvarpsstöðin TV2 eftir Jens Lundgren prófessor í bóluefnafræðum og einum af leiðandi vísindamönnum Danmerkur á þessu sviðið.
„Nýr sjúkdómur hefur verið staðfestur og skilgreindur og nú vitum við að það er bóluefnið sem veldur þessum sjúkdómi,“ segir Lundgren við TV2.
Aðspurður hvort menn hafi skapað sjúkdóm sem gæti orðið fólki að aldurtila kveður Lundgren já við. „Já, þegar öllu er á botnin hvolft snýst málið um það,“ segir Lundgren.
„Þegar glímt er við nýjan sjúkdóm eins og við gerðum með COVID-19 í fyrra þá þarf að finna orsökina fyrir honum. Hverjir eru í áhættuhópi, hvernig sjúkdómsgreinum við og hvernig meðhöndlum við hann?“
Nýi sjúkdómurinn kallast VITT og heilbrigðisyfirvöld í Danmörku telja einn af hverjum fjörtíu þúsundum í hættu. Sagt er að þýskt rannsóknarteymi hafi þann 9. apríl síðastliðinn sannað samhengi milli AstraZeneca bóluefnisins og VITT og greint frá því í hinu viðurkennda riti New England Journal of Medicine.
Segir TV2 að í stuttu máli kvikni sjúkdómurinn þegar sá bólusetti myndi ekki aðeins mótefni gegn COVID-19 heldur líka gegn blóðflögum sem kallast trombocytter. Blóðflögurnar stýri storknunareiginleikum blóðsins.
Þýska rannsóknin sýndi að hjá þeim sem fengu sjúkdóminn verði blóðið kekkjótt í æðakerfinu og gæti það skapað lífshættulega blóðtappa. Dönsk rannsókn bendi til þess sama.
„Þetta er einfaldlega komin ný sjúkdómsgreining, nýr sjúkdómur, nýtt flækjustig í læknabækurnar,“ sagði Søren Brostrøm, forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar í Danmörku á blaðamannafundi í gær.