Nokkur töf hefur myndast í bólu­setningar­mið­stöðinni í Laugar­dals­höll vegna þess að bólu­efni AstraZene­ca kláraðist. Bólu­setja átti fólk með seinni skammti bólu­efnisins í dag en vegna þess að færri skammtar komu en búist var við var ekki hægt að halda þeim plönum ó­breyttum.

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar á Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Við erum að á­kveða að bjóða fólki Pfizer í seinni skammt. Við fengum ekki alla þá skammta sem við bjuggumst við, það fór út á land ein­hver slatti, þannig við fengum ekki alla. En þá ætlum við að taka á þetta ráð að bjóða bara Pfizer í seinni, þetta er svipað og önnur lönd eru að gera, að bjóða AstraZene­ca í fyrri og Pfizer í seinni, þannig við höfum alveg fulla trú á að fólk þiggi þetta,“ segir Ragn­heiður.

Góður kokteill að blanda AstraZeneca og Pfizer

Það að blanda bólu­efnum saman er ekkert endi­lega síðri kostur en að fá sama bólu­efnið í báðum bólu­setningum. Ýmsar þjóðir hafa farið þá leið að gefa fólki annað bólu­efni eftir fyrri bólu­setningu af AstraZene­ca þar á meðal Kanada sem bjóða upp á Pfizer í seinni skammti.

„Við höfum heyrt að þetta sé bara mjög góður kok­teill. Það eina er kannski að það kemur smá töf hjá okkur, þess vegna kemur smá röð af því við erum að skipta út og blanda og þetta tekur smá tíma. Við reiknum bara með að þetta muni ganga vel,“ segir Ragn­heiður.

En ef fólk sem er búið að fá fyrri bólu­setningu af AstraZene­ca vill fá það sama í seinni bólu­setningu?

„Já, það getur þá beðið. Það verður lík­lega eftir svona tæpar tvær vikur en okkur skilst að það sé að koma meira til landsins af AstraZene­ca í lok næstu viku,“ segir Ragn­heiður að lokum.