Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins greindi frá því fyrr í dag að Evrópu­sam­bandið væri búið að höfða mál gegn AstraZene­ca fyrir að standa ekki við gefin lof­orð um dreifingu bólu­efna­skammta til sam­bandsins en mikil tog­streita hefur verið milli ESB og AstraZene­ca síðast­liðna mánuði vegna málsins.

Eftir að ESB hafði til­kynnt um málið gaf AstraZene­ca út yfir­lýsingu þar sem fram kom að mál­sókn Evrópu­sam­bandsins væri til­hæfu­laus. Þá sögðust þau ætla að verjast á­sökunum sam­bandsins af hörku og að þau fagni tæki­færinu til þess að leysa á­greininginn þeirra á milli.

Samningar miðuðu við 300 milljón skammta

Sam­kvæmt samningi AstraZene­ca og Evrópu­sam­bandsins átti fyrir­tækið að „gera sitt besta“ til að af­henda sam­bandinu 180 milljón skammta af bólu­efninu á öðrum árs­fjórðungi þannig að í lok júní væri búið að af­henda 300 milljón skammta í heildina frá desember 2020.

Í mars kom síðan í ljós að fyrir­tækið gæti að­eins af­hent um þriðjung þeirra skammta fyrir lok júní og síðast­liðinn föstu­dag á­kvað fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins að höfða mál gegn AstraZene­ca. Öll 27 með­lima­ríki Evrópu­sam­bandsins studdu þá á­kvörðun en Þýska­land, Frakk­land, og Ung­verja­land voru upp­runa­lega treg til þess.

„Hver bólu­efna­skammtur skiptir máli“

Evrópu­sam­bandið krefst þess að AstraZene­ca standi við gefin lof­orð um 300 milljón skammta af bólu­efninu. Þau munu aftur á móti ekki fara fram á 100 milljón við­bótar­skammta sem þeim stóð til boða að kaupa sam­kvæmt samningum.

„Við viljum tryggja hraða dreifingu full­nægjandi fjölda skammta sem í­búar Evrópu eiga rétt á og hefur verið lofað á grunni samningsins,“ sagði tals­maður Evrópu­sam­bandsins um málið og bætti við að AstraZene­ca hafi brotið á samningum að á­kveðnu leiti. „Hver bólu­efna­skammtur skiptir máli.“