Oddur Ævar Gunnarsson og Fanndís Birna Logadóttir
Sunnudagur 19. janúar 2020
08.30 GMT

„Á meðan ég tala brennur suð­austur­hluti Ástralíu. Af hverju? Vegna þess að hita­stig Jarðarinnar fer hækkandi.“ Þetta sagði sjónvarpsmaðurinn David Attenborough í samtali við BBC á dögunum um gróðureldana í Ástralíu og áhrif loftlagsbreytinga þar á.

Eldarnir hafa undanfarnar vikur vakið heimsathygli en ljóst er að skaðinn sem þeir hafa valdið er án fordæma. Fréttablaðið hefur tekið saman nokkur atriði um eldana, sem dregið hafa að minnsta kosti þrjátíu manns til dauða, einn milljarð dýra og eyðilagt að minnsta kosti þrjú þúsund heimili Ástrala.

Þá ræddi blaðið jafnframt við Láru Jónsdóttur, íbúa í Sydney, sem segir ljóst að eldarnir nú séu vendipunktur sem allir Ástralir muni minnast. Auk þess ræddi blaðið við ástralska prófessorinn Stephen Webb, við Bond háskóla í Gold Coast í Queensland ríki, sem segir ótvírætt að eldana megi rekja með beinum hætti til loftlagsbreytinga. Haldi hitastig jarðar áfram að hækka verði Ástralía fyrsta óbyggilega heimsálfan af mannavöldum.

Sumarið slegið öll met

Árstíðirnar í Ástralíu eru öðruvísi en hjá Íslendingum, á meðan vetur er núna á Íslandi þá er sumar hjá Áströlum og er því tímabilið milli desember og febrúar það heitasta í Ástralíu. Þar sem mikill hiti er í landinu, og þurrkur þar af leiðandi, er það ekki óeðlilegt að skógareldar kvikni, til að mynda út frá eldingum.

Ástralska sumrið sem nú stendur yfir hefur slegið öll met, síðastliðinn desember var sá þurrasti í sögu Ástralíu og hiti fór víða yfir 40 gráður. Meðal hitastig í Ástralíu var 41,9 gráður þann 18. desember og í byrjun janúar fór hitinn upp í tæpar 49 gráður í Penrith, sem er vestan Sydney.

Ákveðinn vítahringur hefur nú myndast þar sem hitinn veldur þrumuveðri sem kveikir nýja elda og mikill vindur hefur áhrif á útbreiðslu eldanna. Slökkvistarf hefur því reynst sérstaklega erfitt, sérstaklega í Nýju Suður-Wales og Viktoríu.

Aðstoð frá öllum heimshornum

Skógareldarnir hafa nú staðið yfir frá því í september á síðasta ári og hefur ríkisstjórn Ástralíu verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi. Meðal þeirra sem hafa hlotið mestu gagnrýnina er forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, þar sem umhverfisstefna hans er ekki talin vera í takt við loftslagsbreytingar um allan heim. Þá telja margir að hann hafi brugðist of seint við en hann viðurkenndi sjálfur fyrr í vikunni að hann hafði brugðist illa við.

Fólk um allan heim hefur brugðist við ástandinu, þúsundir sjálfboðaliða vinna nú að því að takmarka útbreiðslu eldanna og fjölmörg lönd hafa boðið Áströlum fjárhagsaðstoð, birgðir og hjálp viðbragðsaðila. Það eru þó ekki aðeins yfirvöld sem hafa boðið fram aðstoð heldur hefur ríka og fræga fólkið, til dæmis Chris Hemsworth, Leonardo DiCaprio og Elton John, heitið milljörðum króna til Ástralíu og vakið athygli á ástandinu þar.

Staðan eins og er

Erfitt er að gera ráð fyrir hversu mikið hefur eyðilagst vegna eldana en eins og staðan er í dag þá hafa að minnsta kosti tíu milljón hektarar, rúmlega hundrað þúsund ferkílómetrar, brunnið í Ástralíu. Til samanburðar er landsvæði Íslands rúmlega hundrað þúsund ferkílómetrar.

Eftir langvarandi þurrviðri fengu Ástralir loksins rigningu í vikunni og hefur því reynst örlítið auðveldara að hafa stjórn á eldunum en ekki er hægt að segja að baráttu Ástrala sé þar með lokið. Næstu mánuðir munu reynast erfiðir þar sem búist er við miklum hita og miðað við útbreiðslu eldana hingað til er enn möguleiki að þeir nái að breiða frekar úr sér þegar rigningin hættir.

Tugir látnir og milljarður dýra farist

Eldarnir eru sérstaklega skæðir í suðaustur hluta Ástralíu, aðallega Nýja Suður-Wales og Viktoríu-fylki. Hundruð elda hafa brunnið á svæðinu síðustu mánuði og hafa að minnsta kosti 20 manns látist, bara í þeim fylkjum. Þá hafa um það bil þrjú þúsund manns þurft að flýja heimili sín í Nýju Suður-Wales. Forsætisráðherra Ástralíu hefur nú heitið tveimur milljörðum í slökkvistarf og uppbyggingu í landinu.

Það er þó ekki aðeins mannfólkið sem hefur látið lífið í skógareldunum, heldur telja vísindamenn að meira en milljarður dýra hafi farist frá því að skógareldarnir hófust. Látin dýr eru algeng sjón og vinna sjálfboðaliðar að því að bjarga þeim sem enn eru á lífi. Fjölmargar tegundir dýra eru nú í mikilli útrýmingarhættu vegna eldanna og eru nokkrar tegundir stutt frá því að þurrkast gjörsamlega út.

Merki um það sem koma skal

Að mati vísindamanna ber ástandið í Ástralíu merki um hvers heimurinn megi vænta á næstu árum ef ekki tekst að hægja á hlýnun jarðar. Aukinn hiti jarðar hefur ekki aðeins leitt til skæðra skógarelda í Ástralíu heldur hafa til að mynda Kaliforníu-ríki Bandaríkjanna og Amazon-skógurinn lent verulega illa í slíkum eldum.

Að sögn Richard Betts, prófessor í landafræði við háskólann í Exeter, mun ástandið aðeins koma til með að versna á komandi mánuðum ef engu verður breytt. „Þetta er sífellt að versna. Því fyrr sem að við minnkum útblástur, því fyrr getum við hægt á vextinum,“ sagði Betts í samtali við Guardian á dögunum um stöðuna.

Ástralir eigi eftir að muna hvar þeir voru

Lára býr í Sydney og þekkir landið vel.
Fréttablaðið/Samsett

Lára Jónas­dóttir, verk­efnis­­stjóri hjá Læknum án landa­­mæra, segir að eldarnir hafi geisað það lengi að fólk orðið að ein­hverju leyti vant þeim. Hún býr í S­yd­n­ey og segir að mikil svif­ryksmengun hafi verið í borginni frá því í desember. Líkams­ræktar­stöðin hennar til að mynda þurfti að loka vegna mengunar. Lára hefur bæði unnið og stundað nám í Ástralíu og þekkir landið vel.

„Það er ekkert í mínu lífi sem ég hef ekki náð að gera, en um jólin kom fjöl­skyldan frá Ís­landi í heim­sókn og við ætluðum í ferða­lag norður með ströndinni og þá fylgdist ég mjög vel með því hvar eldarnir voru. Þjóð­veginum hafði áður verið lokað en hann hélst opinn um jólin og við urðum ekki beint fyrir þessu en sáum á ströndinni um­merki um eld.“

Hún setur eldana í sam­hengi við snjó­flóðin á Vest­fjörðum á Ís­landi. „Ef maður hugsar um snjó­flóðin á Ís­landi þá er þetta það sem allir eru að hugsa um alltaf. Þetta er stans­laust í um­ræðunni, allir þurfa að tala um þetta.“

Lára segir á­kveðna gremju ríkja meðal þjóðarinnar. „Það er svona á­kveðin undir­liggjandi, sumir myndu segja reiði, aðrir von­brigði, vegna þess að það þóttu ekki nógu góðar neyðar­á­ætlanir til staðar til að bregðast við svona um­fangs­miklum eldum.“

Mikil svifryksmengun hefur verið í Sydney frá því í desember.
Fréttablaðið/Getty

Hún segir að for­sætis­ráð­herrann Scott Morri­son hafi verið harð­lega gagn­rýndur. „Hann hefur verið gagn­rýndur alveg gríðar­lega mikið fyrir að bregðast ekki við og hálf­partinn gera sjálfan sig svo­lítið að fífli vegna við­bragða sinna og þegar hann fór loksins að heim­sækja fórnar­lömb eldanna, fólk sem hafði misst allt sitt, þá hagaði hann sér mjög ein­kenni­lega,“ segir Lára. Hún segir ráð­herrann halda því fram að við­brögðin hafi verið rétt.

„Þetta er tíma­bil í lífi allra Ástrala sem allir munu muna eftir. Allir munu muna eftir því hvar þeir voru ára­mótin 2019 til 2020. Þetta eru tíma­mót í ástralskri sögu,“ segir Lára og tekur fram að tíðni eldanna nú sé án for­dæma. „Ástralía er auð­vitað land eldanna og inn­byggt í náttúruna hér, gróður­eldar. En eins og með Ís­land, þar eru snjó­flóð tíð en ekki á þeim skala að þau hafi alltaf á­hrif á líf fólks,“ segir Lára og bendir meðal annars á þann mikla fjölda sem látið hafi lífið vegna skógar­eldanna og af­leiðinga þeirra.

„Þeir sem eru með öndunar­færa­sjúk­dóma munu kljást við af­leiðingar þessara elda í marga mánuði eða lengur. Því maður veit auð­vitað ekki hvað þetta þýðir, mun þetta bara halda á­fram? Þetta er al­gjör­lega for­dæma­laust,“ segir Lára.

Svona var umhorfs á föstudaginn var í Bilpin í New South Wales ríki, skammt frá Sydney.
Fréttablaðið/EPA

Baráttan gegn eldunum persónuleg

Í Tasmaníu sé til að mynda rann­sóknar­mið­stöð eld­sér­fræðinga. „Þar er þekktur maður sem heitir David Bowen minnir mig og hann er sér­fræðingur í því hvernig á að kljást við svona elda, sem er merki um það hversu mikil þekking er á þessu fyrir­brigði í landinu en samt ná menn ekki tökum á eldunum,“ segir Lára.

Þrátt fyrir þekkinguna hafi við­brögðin ekki verið til staðar og því standi til nú að skipa rann­sóknar­nefnd á vegum ástralska ríkisins. Lára tekur fram að ekki megi gleyma því að slökkvi­lið hafi staðið sig afar vel og gert það sem sem í þess valdi stóð.

„En það voru að mestu sjálf­boða­liðar í starfinu og það vantar svo­lítið sam­hæfingu á milli þeirra og þá eru margir í slökkvi­liðunum launa­lausir, þeir unnu að þessu í margar vikur án launa. Rétt eins og hjá björgunar­sveitunum heima er þetta fólk sem er að vinna oftast í sínum eigin sam­fé­lögum, sínum bæ og því verður þetta mjög per­sónu­legt.“

Lára segir að nú hafi safnast gríðar­lega mikið fé, þökk sé meðal annarra þekktum ein­stak­lingum. „Það er gott og vel, þar sem nú er verið að gefa til slökkvi­liða, sem hafa ekki haft mikið fjár­magn en vita kannski ekki alveg hvernig á að spila úr þessu. Þannig að núna er til að mynda rætt um hvernig hægt sé að styrkja fleiri dýra­lífs- og náttúru­verndar­sjóði sem geti þá beitt sér fyrir upp­byggingu á svæðunum í kjöl­farið,“ segir Lára.

Fórnar­lömb sem misst hafi heimili sín muni fá styrki frá ríkinu. „En það hefur ekki enn verið litið til þess hvernig að­stoð náttúran mun fá og hvernig það verður gert,“ segir Lára. Á­fallið sé enn til staðar hjá lands­mönnum.

Meirihluti slökkviliðsmanna sem berst gegn eldunum eru sjálfboðaliðar.
Fréttablaðið/EPA

„Það er mjög lítið talað um það enn, kannski af virðingu við þá sem eru enn að berjast við eldana og hafa misst allt sitt. En það sem kannski kemur núna út úr þessu er að veik­leikarnir í kerfinu hafa komið í ljós og þar mun rann­sóknar­nefndin væntan­lega koma með til­mæli um hvernig hægt sé að halda á­fram,“ segir Lára, spurð út í upp­byggingu á svæðum sem orðið hafa verst úti vegna eldanna.

Hún nefnir sem dæmi eina af brota­lömum í við­brögðum Ástrala að vantað hafi grímur vegna svif­ryksmengunar. „Eitt af því sem hefur komið mjög skýrt í ljós er að það vantar svona grímur, svona and­lits­grímur sem eru sér­stak­lega gerðar fyrir mikla mengun og þær eru hrein­lega upp­seldar í landinu. Ríkið út­deildi um 3,6 milljónum og það er búið að dreifa þeim en svo kemur í ljós að það vantar al­gjör­lega grímur fyrir börn. Því það skiptir miklu máli hvernig gríman passar á and­litið og það er til dæmis eitt­hvað sem enginn pældi í,“ segir Lára.

Það sé vont þar sem loft­gæðin hafa verið slæm. „Loft­gæðin í höfuð­borginni Can­berra hafa til dæmis verið eins og í verstu mengunar­borgum í heimi.“ Að öðru leyti segir Lára að eldarnir hafi ekki bein á­hrif á dag­legt líf íbúa í borgum landsins.

Janúar og febrúar gjarnan gróður­elda­tíma­bil

Vonir standi til að á­standið batni en janúar og febrúar séu hins vegar gróður­elda­tíma­bil. Lára segir mikla rigningu þurfa til að á­standið batni til langs tíma.

„En það þarf ansi mikla rigningu. En það sem veldur eldunum líka er ekki bara að það sé heitt, heldur eru það líka sterkir vindar. Sterkar vind­hviður sem gera þetta svo erfitt.“

Hún segir fólk ekki velta mikið fyrir sér fram­haldinu, heldur því sem sé að gerast núna. „Hér er líka alltaf að aukast þátt­takan í lofts­lags­mót­mælum sem fara fram á föstu­dögum, þrátt fyrir að Ástralir séu ekki mikil mót­mæla­þjóð.“

Hún segir að lykil­at­riðið sé það að eldana megi rekja til lofts­lags­breytinga. „Yfir­maður slökkvi­liðsins hér sem er oftast í sjón­varpinu, hann er bara búinn að segja það. Hann er hættur að hlusta á hvað pólitíkusarnir segja, hann segir það bara fullum fetum að þetta sé vegna lofts­lags­breytinga.“

Ástralía verði fyrsta ó­byggi­lega landið vegna hnatt­rænnar hlýnunar?

Steve Webb er prófessor og býr í Gold Coast borg í Queensland ríki. Hann segir að hnattræn hlýnun geti valdið því að Ástralía verði óbyggileg.
Fréttablaðið/Samsett

Ste­ve Webb, prófessor í Ástralíu­fræðum við Bond há­skóla í Gold Coast borg í Qu­eens­land ríki, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að or­sakir eldanna nú séu flóknar. „Eldarnir hafa svo sannar­lega verið al­var­legir og við erum enn að átta okkur á á­hrifum þeirra. Á­stæðurnar fyrir þeim eru flóknar en aðal­at­riðið er að þetta er vegna lofts­lags­breytinga.“

Webb, sem kennir meðal annars á­fanga um sögu Ástralíu auk á­fangans „Austra­li­a: Dreamtime to Dust“ um sögu mannsins í álfunni og menningu frum­byggja­þjóðanna sem þar búa auk jarð­fræði Ástralíu, segist ný­lega hafa kynnt til sögunnar nýjan á­fanga sem snúist al­farið um lofts­lags­breytingar.

Hann telur upp nokkur at­riði sem hann segir að hafi or­sakað það hve eldarnir eru miklir að um­fangi í ár. „Í fyrsta lagi höfum við verið að upp­lifa langt þurrka­tíma­bil sem hefur haft á­hrif á marga hluta Ástralíu,“ segir Webb.

„Í ofan­á­lag höfum við þurft að þola ó­hemju hátt hita­stig og á­kaf­lega litla rigningu. 2019 var heitasta árið okkar frá upp­hafi mælinga og úr­komu­magnið hefur að sama skapi aldrei mælst minna. Það gerði þurrkana verri og margir, sér­stak­lega í ó­byggðunum, hafa liðið illa fyrir það,“ segir prófessorinn. „Af­leiðing þess er að mat­væla­fram­leiðsla minnkar og eldarnir verða verri. Fram­færslu­kostnaður hækkar þess vegna hjá fólki.“

Vindabelti að breytast vegna hlýnunar

„Í öðru lagi, hefur þurrkurinn gert það afar erfitt að berjast gegn eldunum því það þarf að flytja vatnið frá stöðum sem eru langt í burtu. Trén fengu lítið sem ekkert vatn svo þau hafa misst laufið sem hefur skrælnað og það eykur á elds­matinn og gerir þetta verra.“

Webb segir að hreyfing og staða tveggja vinda­belta sem kennd eru við suður­skautið (e. Sout­hern annular mode) og Ind­lands­haf (e. Indian ocean di­po­le) hafi valdið því að rignt hafi minna en nokkru sinni fyrr.

„Hið síðara þýðir meiri rigningu yfir austur­hluta Afríku og nánast enga rigningu fyrir okkur. Breytingar á þessum fyrir­bærum í síðari tíð er lík­legast hægt að rekja til lofts­lags­breytinga en þetta eru flókin kerfi og það er enn margt sem við eigum eftir ó­lært um þau.“

Gróðureldarnir sjást úr geimnum, líkt og sjá má á þessari mynd frá geimrannsóknastofnun Bandaríkjanna, NASA.
NASA

Að síðustu fer Webb ó­fögrum orðum um stjórn­mála­menn í ríkis­stjórn Ástralíu. „Við erum með ríkis­stjórn sem trúir því ekki að hnatt­ræn hlýnun sé að eiga sér stað, jafn­vel þótt hún þykist gera það,“ segir Webb.

Hann rifjar upp að Scott Morri­son, for­sætis­ráð­herra Ástralíu, hafi eitt sinn tekið með sér kola­mola á fund með ástralska þinginu, þar sem hann hafi spurt stjórnar­and­stöðuna hvort hún væri hrædd við kol.

Prófessorinn segir að lík­legast verði eldar sem þessir fyrr en varir dag­legt brauð í lífi Ástrala.

„Þannig að það eru margir þættir sem þarf að taka til greina þegar eldarnir okkar eru ræddir. Sér­fræðingar hér segja að þeir verði tíðir og einn þekktur banda­rískur fræðingur segir að Ástralía verði fyrsta landið til að verða ó­byggi­legt ef hita­stig á heims­vísu fer upp um meira en þrjár gráður. Þeir hafa lík­legast allir rétt fyrir sér.“

Athugasemdir