„Ég hafði undirbúið bónorðið í nokkra mánuði, en svo skall COVID á og allt fór í klessu,“ segir Ástralinn Gareth Robinson sem ætlaði að biðja kærustu sinnar, Anneke Meehl, í fyrirhuguðu ferðalagi þeirra til Íslands.

„Við gerðum okkur smám saman grein fyrir því að það myndi ekki verða af ferðinni,“ segir Gareth sem þrátt fyrir vonbrigðin lét ekki deigan síga. Hann sendi inn fyrirspurn til íslenska samfélagsins á vefsíðunni Reddit þar sem hann bað um aðstoð Íslendinga.

„Fyrst við komumst ekki til Íslands langaði mig að fá mynd frá Íslandi sem hefði persónulega skírskotun fyrir okkur,“ segir Gareth sem spurði hvort einhver hefði tök á að taka mynd úr íslenskri náttúru sem hann mætti nota þegar hann bæði Anneke að giftast sér.

Svörin létu ekki á sér standa. Innan skamms hafði Gareth fengið mörg skilaboð. „Það kom mér mikið á óvart hversu margir buðust til að hjálpa,“ segir hann. „Einn þeirra var í flugnámi og bauðst til að taka myndir af Vatnajökulsþjóðgarði þegar aðstæður leyfðu, en ég þurfti því miður að afþakka vegna tímarammans.“

Myndin sem Máni tók af Höttu.

Þáði myndir frá Vík

Einn bauðst til að taka myndir skammt frá Vík og þáði Gareth það. Skömmu síðar fékk hann senda mynd með glæsilegu útsýni yfir íslenska náttúru ásamt skilti með áletruninni „Viltu giftast mér, Anneke?“

Gareth fór svo með Anneke á uppáhaldspizzastaðinn þeirra í Ástralíu og þóttist leita að upplýsingum um opnunartíma í símanum sínum. Hann rétti svo Anneke símann sem varð hissa þegar hún sá bónorðið. „Það tók hana smá tíma að fatta þetta en hún sagði já,“ segir Gareth sigri hrósandi. 

„Ég fór upp á Höttu yfir Heiðarvatni til að taka myndina sem er tæplega tveggja tíma ferð fótgangandi,“ segir góðhjartaði Víkverjinn sem kallar sig Mána. Hann hefur búið á Íslandi í sjö ár og hefur áður rétt Íslandsvinum hjálparhönd.

„Það var líka einhver frá Kanada sem var að leita að ritvél með íslenskum stöfum (þ, ð, æ) og var ég með eina sem ég sendi þeim,“ segir Máni og útilokar ekki að hjálpa fleiri fjarlægum biðlum með bónorð í framtíðinni.

Anneke og Gareth stefna að því að heimsækja Ísland að ári.