Ástralar munu hefja endur­opnun landa­mæra sinna frá nóvember og veita ríkis­borgurum sínum og ættingjum þeirra lang­þráð frelsi eftir 18 mánaða landa­mæra­lokun.

Allt frá upp­hafi Co­vid far­aldursins í mars 2020 hefur ein strangasta landa­mæra­stefna vestur­landa verið við lýði í Ástralíu og hefur áströlskum ríkis­borgurum í raun verið bannað að yfir­gefa landið nema undir sér­stökum kring­um­stæðum.

Sátt hefur ríkt um reglurnar innan Ástralíu og þykir ríkis­stjórn Scott Morri­son hafa tekist vel til við að kveða Co­vid niður í kútinn en þær hafa þó alla tíð mátt sæta gagn­rýni á al­þjóða­vett­vangi, meðal annars fyrir að sundra fjöl­skyldum.

Rúm­lega 107.000 Co­vid smit og meira en 1300 dauðs­föll hafa mælst í Ástralíu frá upp­hafi far­aldursins.

Mega að­eins yfir­gefa landið í sér­stökum kring­um­stæðum

„Það er kominn tími til að gefa Áströlum líf sitt aftur,“ sagði Scott Morri­son, for­sætis­ráð­herra.

Fólki verður gert kleift að ferðast er­lendis þegar hlut­fall bólu­settra innan þeirra fylkis er komið yfir 80 prósent, sagði Morri­son á blaða­manna­fundi í dag.

Ferða­mönnum mun ekki verða hleypt inn í landið enn um sinn en ríkis­stjórnin segist vera að vinna að á­ætlunum um að bjóða túr­ista aftur vel­komna til landsins. Morri­son hafði áður sagt að landa­mæri Ástralíu verði ekki opnuð að fullu fyrr en um mitt ár 2022.

Eins og stendur geta Ástralar að­eins yfir­gefið landið í sér­stökum kring­um­stæðum svo sem fyrir nauð­syn­lega vinnu eða til að heim­sækja dauð­vona ættingja.

Landið er einungis opið ríkis­borgurum og þeim sem eru með undan­þágu vegna vinnu eða annarra á­stæðna, en strangar fjölda­tak­markanir eru í gildi yfir hversu mörgum er hleypt inn í landið. Tug­þúsundir Ástrala hafa orðið strandaðir er­lendis.

Far­sóttar­hótel ekki lengur skilyrði

Morri­son hefur sagt að reglur um lög­bundna sótt­kví á far­sóttar­hóteli verði skipt út fyrir sjö daga heima­sótt­kví fyrir bólu­setta Ástrala eða fólk með dvalar­leyfi. Óbólu­settir ferða­langar munu þó enn þá þurfa að dvelja í 14 daga á hóteli.

Dvöl á far­sóttar­hóteli kostar 3000 ástralíu­dali fyrir hvern ferða­lang, and­virði um 280.000 ís­lenskra króna.

Ástralska flug­fé­lagið Qantas hefur brugðist við fréttunum með því að til­kynna að þeir muni hefja aftur milli­landa­flug mánuði fyrr en á­ætlað var. Þeir höfðu þegar hafið sölu á flugum til flestra á­fanga­staða frá 18. desember.

Sam­komu­bann gildir enn í S­yd­n­ey, Mel­bour­ne og Can­berra, þremur af stærstu borgum Ástralíu, vegna mikillar út­breiðslu veirunnar í sumar. Talið er að það hafi hjálpað til við að hraða bólu­setningum í við­komandi fylkjum.

Sjá nánar á vef BBC.