Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt og Jón Höskuldsson dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness verða skipuð í tvær lausar stöður dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Með nýrri skipun Ragnheiðar, sem er nú þegar dómari við réttinn, hafa þrír af þeim fjórum dómurum sem ekki voru skipaðir í samræmi við lög, þegar dómurinn var settur á laggirnar í janúar 2018, fengið nýja skipun við dóminn.

Þrjú tvívegis skipuð við réttinn

Ásmundur Helgason var skipaður á ný 17. apríl 2020 og var kollegi hans við réttinn, Arnfríður Einarsdóttir meðal umsækjenda um stöðuna sem þá losnaði. Hún var skipuð á ný 1. júlí síðastliðinn. Þá losnaði hennar fyrra embætti við réttinn, og um það sótti meðal annarra, Ragnheiður Bragadóttir, Landsréttardómari sem fær nú nýja skipun. 

Sá eini í fjögurra manna hópnum sem ekki hefur fengið endurnýjaða skipun er Jón Finnbjörnsson. Hann lenti í þrítugasta sæti í mati dómnefndar um hæfi þeirra þrjátíu og þriggja umsækjenda sem sóttu um fyrstu dómarastöðurnar fimmtán og hefur ekki sóst eftir eftir embætti við réttinn á ný frá því hann var skipaður við réttinn 1. Janúar 2018. Hann hefur verið í leyfi frá dómstörfum frá því dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp 12. mars í fyrra.

Auk þeirrar stöðu Arnfríðar sem losnaði við nýja skipun hennar, losnaði önnur staða við réttinn þegar Sigurður Tómas Magnússon var skipaður dómari Hæstarétt 18. maí 2020.

Jón Höskuldsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness er einn fjögurra umsækjenda ekki hlutu dómaraembætti, við fyrstu skipun dómara við réttinn, þrátt fyrir að hafa verið í hópi fimmtán hæfustu. Annar úr þeim hópi,  Eiríkur Jónsson prófessor, var skipaður var dómari við Landsrétt 1. september í fyrra, og fyllti skarð Vilhjálms Vilhjálmssonar sem fór á eftirlaun.

Tvisvar meðal hæfustu umsækjenda

Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur hins vegar ekki enn verið skipaður við Landsrétt, þátt fyrir að hafa sótt um í öll sex skiptin sem dómaraembætti hefur verið auglýst, oftar en allir aðrir. Hann hefur tvívegis verið metinn í hópi hæfustu umsækjenda. Hann var í hópi fimmtán efstu þegar dómurinn var settur á laggirnar og í nýjasta áliti dómnefndar sem birt var 2. september síðastliðinn, var hann metinn hæfastur ásamt þeim Ragnheiði Bragadóttur og Jóni Höskuldssyni, sem fengu lausu stöðurnar tvær.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að með skipun Ragnheiðar, sem á nú þegar sæti við réttinn, losni dómarastaða enn á ný sem auglýst verði innan tíðar.

Þá losnar einnig staða dómara við Héraðsdóm Reykjaness, með skipun Jóns Höskuldssonar í Landsrétt.