Ríkis­sátta­semjari hefur skipað dómara í gerðar­dóm í deilu Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga og ríkisins. Ást­ráður Haralds­son, héraðs­dómari og að­stoðar­ríkis­sátta­semjari, verður for­maður gerðar­dómsins en auk hans munu þau Guð­björg Andrea Jóns­dóttir, for­stöðu­maður Fé­lags­vísinda­stofnunar Há­skóla Ís­lands og doktor í sál­fræði og Gylfi Ólafs­son, for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða og doktor í heilsu­hag­fræði, dæma í málinu.

Sam­kvæmt til­kynningu frá ríkis­sátta­semjara, Aðal­steini Leifs­syni, mun gerðar­dómur ljúka störfum sínum fyrir 1. septem­ber næst­komandi. Verk­efnið er að skera úr um launa­lið í kjara­samningum hjúkrunar­fræðinga við ríkið.

Samninga­nefndirnar funduðu hjá ríkis­sátta­semjara í fleiri mánuði en komust loks að niður­stöðu í lok síðasta mánaðar. Þar var sam­þykkt að gerðar­dómi yrði falið að á­kveða launa­lið samningsins þar sem nefndirnar hefðu náð saman um öll önnur at­riði hans og sáu ekki fram á að ná saman um launa­liðinn. Því væri það eina í stöðunni að fá þriðja aðila það verk­efni í hendur.

Aðal­steinn Leifs­son ríkis­sátta­semjari lagði fram miðlunar­til­lögu um að gerðar­dómur tæki á­kvörðun um launa­liðinn. Bæði ríkið og hjúkrunar­fræðingar féllust á hana.
Fréttablaðið/Ernir

Í til­kynningunni segir að á­greiningur hjúkrunar­fræðinga og ríkisins snúi að því hvort laun hjúkrunar­fræðinga sem starfa hjá stofnunum ríkisins séu í sam­ræmi við á­byrgð, álag, menntun og inn­tak starfa þeirra miðað við aðrar há­skóla­menntaðar stéttir hjá ríkinu.

Báðir samnings­aðilar munu fá að gera grein fyrir sínum sjónar­miðum fyrir gerðar­dómi og leggja fram gögn sem styðja við þau. „Gerðar­dómur skal við á­kvarðanir sínar hafa hlið­sjón af kjörum og launa­þróun þeirra starfs­stétta sem sam­bæri­legar geta talist í menntun, störfum, vinnu­tíma og á­byrgð og al­mennri þróun kjara­mála hér á landi. Við mat sitt skal hann taka til­lit til þeirra launa­hækkana sem hópurinn myndi fá eftir sam­þykkt miðlunar­til­lögunnar og eftir at­vikum að­gerða sem stofnanir kunna að grípa til í kjöl­far hans,“ segir í til­kynningunni.