Vatn fraus í lögnum á nokkrum heimilum í Ár­borg, eftir að vatn var tekið af öllu svæðinu á mánu­dags­morgun. Kuldi er í húsum og börn voru send heim úr skólum á mánu­deginum vegna kulda í skóla­hús­næði.

Ein­stæð móðir á Stokks­eyri sem greiddi tæpa hálfa milljón vegna lagna­tjóns fyrir tveimur árum, óttast að al­var­legar skemmdir komi í ljós á næstu dögum.

Ást­hildur Edda Ágústs­dóttir býr með tveimur dætrum sínum á Stokks­eyri. Hún segir allar lagnir hafa frosið á heimili hennar á mánu­dag, en starfs­fólk frá Sel­foss­veitum tengdi fram hjá lögnunum seinna um kvöldið, til þess að ná hita í ofnana.

Tengt var fram hjá lögnunum til að fá hita í ofnana.
Fréttablaðið/Arnar

„Svo þarf ég að fá ein­hvern til að tengja þetta aftur,“ segir hún. „Ég veit ekkert hver ber tjónið, eða hversu miklar skemmdirnar eru. Ég átti ekki von á þessu,“ segir Ást­hildur Edda og bætir við að á tíma­bili hafi 17 gráðu kuldi verið í húsinu.

Ást­hildur Edda, Húgó og Jagó.
Fréttablaðið/Arnar Tómas Valgeirsson

Ást­hildur Edda segist vita til þess að fleiri ná­grannar hennar séu í sömu sporum og í bið­stöðu eftir því að frostinu sleppi til þess að hægt sé að meta tjón.

„Það eru rosa­lega margir ó­sáttir hérna, það er alltaf verið að fikta í lögninni,“ segir hún.

Fyrir tveimur árum lenti Ást­hildur Edda í lagna­tjóni upp á hálfa milljón, en endaði með að sitja uppi með kostnað upp á 450 þúsund krónur.

„Ég hef verið skít­hrædd um að ef eitt­hvað kemur upp á þá endur­taki það sig.“

Á heimilinu eru gælu­dýr sem þola kuldann illa. „Ég er með tvo Amazon-fugla og ég hef haldið á þeim hita með raf­magns­hita­blásara. Ég veit ekki hver raf­magns­kostnaðurinn verður eftir þetta,“ segir hún.

Ást­hildur segist vera í bið­stöðu eftir betra veðri, en ekkert hafi heyrst frá Ár­borg varðandi úr­ræði eða lausnir.