Kristlín Dís Ingilínardóttir
Föstudagur 23. október 2020
23.00 GMT

Söng­konan Bríet Ísis Elfar er flestum Ís­lendingum kunn en hún skaust upp á stjörnu­himininn að­eins á­tján ára gömul. Fyrsta plata hennar, Kveðja, Bríet, sem kom út þann 10. októ­ber síðast­liðinn, sló ræki­lega í gegn á einni nóttu og hefur trónað á toppi hlust­enda­lista Spoti­fy síðan. Fáir hlust­endur voru ó­snortnir eftir ein­lægar játningar plötunnar, sem fjallar um enda­lok ástar­sam­bands í bland við upp­haf á nýrri ást.

„Jakob Frí­mann hlustaði á plötuna og sagði strax: „Þú ert ást­fangin af tveimur í einu,“ segir Bríet, sem brá nokkuð við um­mælin. Eftir nokkra um­hugsun komst hún þó að því að þessi niður­staða væri ekki fjarri lagi. „Ég hef elskað tvo ein­stak­linga af öllu mínu hjarta í þessu lífi og á meðan ég er að kveðja eina ást þá byrjar önnur.“


„Ég hef elskað tvo ein­stak­linga af öllu mínu hjarta í þessu lífi og á meðan ég er að kveðja eina ást þá byrjar önnur.“


Per­sónu­leg plata

Sam­bandi Bríetar við sína fyrstu ást lauk fyrr á þessu ári. „Þá byrja ég alveg á fullu að skrifa í dag­bók hvernig mér líður, hvaða til­finningar ég er að upp­lifa og hvað ég er að hugsa.“ Hana hafði lengi langað að búa til plötu en taldi sig ekki hafa neitt að segja.

Eftir sam­bands­slitin flæddu lögin hins vegar fram og sögðu söguna af ástar­sorginni. „Ég skráði bara niður allar þessar hugsanir sem eru í gangi á meðan maður er að kveðja ein­hvern og kynnast síðan öðrum.“ Það hvarflaði ekki að henni að hún væri að búa til plötu fyrr en hún var nánast til­búin. „Þetta gerðist alveg ó­vart.“

Kveðja, Bríet segir persónulega sögu af ástarsorg og nýju upphafi.
Fréttablaðið/Valli

Ástin bankaði upp á

Stuttu eftir að fyrsta ástin kvaddi bankaði ný ást á dyrnar. „Þá varð til nýtt sam­band á tíma þar sem ég var ó­trú­lega ringluð og vissi ekki hvort ég gæti orkað þetta.“ Vegur ástarinnar var varðaður sektar­kennd í bland við kær­leika. „Þetta var súpa af til­finningum.“

Stærsta hindrunin var hversu stuttur tími hafði liðið frá enda­lokum fyrra sam­bandsins. „Ég vissi að hjarta mitt væri ekki til­búið í þetta og sagði það mjög oft.“ Lykil­máli skipti að nýja ástin gæti sýnt að­stæðunum skilning. „Það tekur á, en hann skilur þetta,“ segir Bríet. „Það er enginn bitur­leiki eða af­brýði­semi, þess vegna gengur okkar sam­band svona vel upp í dag.“

Þótt ó­trú­legt megi virðast hefur nýi maðurinn í lífi Bríetar verið sá sem hefur hjálpað henni hvað mest að vinna úr sam­bands­slitunum. „Hann hefur leyft mér að vera í ástar­sorg á meðan ég er að verða ást­fangin af honum,“ segir Bríet í óða­goti, svo á hana kemur fát. „Það er svo skrítið að segja þetta upp­hátt,“ dæsir hún.


„Þegar ég sé hann hugsa ég að þarna er ástin mín, en ég get ekki verið með honum.“


Engum að kenna

Bríet játar að hún finni enn fyrir mikilli ást í garð fyrri maka síns. „Ég elska hann af öllu mínu hjarta og ég myndi gera allt fyrir hann, en ég veit að við getum ekki verið saman.“ Þess vegna séu að­stæður svo sárs­auka­fullar. „Þegar ég sé hann hugsa ég að þarna er ástin mín, en ég get ekki verið með honum.“

Það er ekki neinum að kenna að sam­bandinu lauk að sögn Bríetar. „Við vorum tveir heil­steyptir ein­staklingar sem elskuðu hvor annan af öllu hjarta og það var allt í himna­lagi.“ Eitt­hvað hafi þó vantað upp á. „Maður skilur ekki hvers vegna manni líður svona þegar mann langar svo inni­lega ekki til þess.“

„Stundum er maður að byggja hús með ein­hverjum og leitar logandi ljósi að rétta litnum til að mála það, áður en maður fattar að mann langar bara ekki til að búa þar.“ Hægt sé að skreyta húsið á alla vegu og setja fersk blóm í gluggana en ekkert dugi til. „Þetta fal­lega, hreina heimili breytir ekki þeirri stað­reynd að maður getur ekki búið þar.“

Á plötunni syngur Bríet um að hafa gengið frá sam­bandinu þegar þau þurftu á hjálp að halda. „Ég var með svo mikla sektar­kennd þegar þessu lauk og það leituðu stöðugt á mig spurningar um hvort ég hefði getað breytt ein­hverju.“

Bríet er þekkt fyrir að bera hjartað á erminni.
Fréttablaðið/Valli

Erfitt að heyra nafnið hans

Bríet var að­eins sau­tján ára þegar hún og fyrsta ástin fóru að slá sér upp saman. Það eru ekki ör­lög allra að enda með æsku­ástinni, en ekkert getur lýst til­finningunni þegar sú ást tekur enda, að mati Bríetar.

„Ég er alltaf að bíða eftir þeim degi þar sem það verður ekki erfitt að heyra nafnið hans eða sjá hann ein­hvers staðar. Það er ekki þannig núna.“ Bríet segir til­finningarnar þá taka völdin og tárin fari að streyma niður.

Til að byrja með taldi Bríet fyrri maka sinn hafa leyft sér að labba í burtu, með því að gefa henni ekki á­stæðu til að vera um kyrrt. „Ég komst svo að því í ferlinu að það er mjög stór krafa,“ segir Bríet. „Af hverju ætti hann að halda mér ef ég vil ekki vera kyrr?“


„Ég er alltaf að bíða eftir þeim degi þar sem það verður ekki erfitt að heyra nafnið hans eða sjá hann ein­hvers staðar."


Heil plata um sam­bands­slitin

Bríet kveðst ekki vita hvort fyrsta ástin hafi heyrt kveðjuna frá henni. „Ég veit ekkert hvernig hann er að upp­lifa þetta en ég veit að það liggur svo­lítið þungt á honum að það sé komin heil plata.“ Engar deilur eru á milli fyrr­verandi parsins sem hefur hist og rætt saman eftir sam­bands­slitin, en Bríet vill ekki tala fyrir hans hönd.

„Mér finnst erfitt að setja mig í hans spor og í hvert skipti sem ég geri það verð ég mjög sorg­mædd og frekar ó­sátt út í sjálfa mig,“ segir Bríet sak­bitin. „Þegar maður er að búa til lista­verk þá eru bara engar tak­markanir. Maður er að tjá sig í gegnum listina.“ Bríet bendir á að það geti bitnað á þeim sem standi lista­manninum nærri.

„Mér finnst erfitt að setja mig í hans spor og í hvert skipti sem ég geri það verð ég mjög sorg­mædd."

Bríet segir skiljan­legt ef út­gáfunni myndi fylgja á­kveðinn bitur­leiki hjá fyrri maka. „Ég get alveg séð fyrir mér að hugsanir á borð við „þú fórst frá mér, af hverju ert þú að semja þetta?“ skjóti upp kollinum og bara af hverju í and­skotanum maður sé að þessu.“ Hún bendir þó á að það sé ekki hægt að rit­skoða listina. „Ég reyndi bara að sleppa þessu fal­lega frá mér og af eins mikilli nær­gætni og mér var unnt.“

Valdi rétta braut

Á plötunni spyr Bríet sjálfa sig hvort það stingi meira að halda í það sem var, eða kveðja. Í dag hefur hún komist að þeirri niður­stöðu að hún hafi breytt rétt með því að fara. „Ég skrifaði í dag­bókina mína hversu stolt ég væri af mér að hafa áttað mig á því að þetta myndi ekki ganga.“ Sú upp­götvun hefði allt eins getað átt sér stað sjö árum seinna.

„Ég stóð með sjálfri mér og inn­sæi mínu,“ segir hún og bendir á að breytingar séu oft nauð­syn­legar án þess að nokkuð ami að.

Bríet hefur aldrei drukkið áfengi eða neitt vímuefna þar sem hún hefur ekki áhuga á að sljóvga hugann.
Fréttablaðið/Valli

Eins árs í svita­hofi

Frá unga aldri hefur Bríet lagt upp úr því að vera í tengslum við til­finningar sínar. „Ég var sex­tán mánaða þegar ég fór í svett, eða svita­hof, í fyrsta skipti og það er náttúr­lega at­höfn þar sem þú ert að líta inn á við, fara niður í jörðina og skilja egóið eftir.“ Móðir Bríetar, Ás­rún Laila Awad, hefur stjórnað svita­hofs­at­höfnum í hart­nær þrjá ára­tugi og hefur ætíð átt í nánu sam­bandi við dóttur sína.

„Mamma hefur alltaf verið alveg ber­skjölduð með allt, bæði varðandi hennar neyslu og hennar til­finningar og ástar­sam­bönd.“ Það er allt uppi á borði á milli mæðgnanna. „Hún leyfði mér að læra af hennar mis­tökum án þess að banna mér neitt.“

Bríet hefur aldrei drukkið á­fengi eða neytt vímu­efna og var móðir hennar mikill á­hrifa­valdur þegar kom að þeirri á­kvörðun. „Hún er mjög opin­ská um hvaða á­hrif neyslan hafði á líf hennar og því hefur það aldrei höfðað til mín að fara í ein­hvers konar vímu.“

Mæðgunum svipar veru­lega hvorri til hinnar í per­sónu­leika. „Að eiga móður sem er kær­leiks­rík og tekur öllu opnum örmum, verður til þess að maður verður þannig sjálfur. Opnari fyrir leitinni að þeim til­finningum sem eru í spilunum.“


„Hún leyfði mér að læra af hennar mis­tökum án þess að banna mér neitt.“


Í tengslum við til­finningarnar

Til­finninga­næmi kemur að mati Bríetar með æfingunni. Sjálf byrjaði hún að fara til sál­fræðings ellefu ára gömul. „Þar lærir maður að nota orðin sín og átta sig á því hve­nær maður er ó­sann­gjarn og hve­nær maður á að standa með sjálfum sér.“ Hún segir fólk eiga það til að minnka til­finningar sínar og gera ráð fyrir að eigin brestir or­saki til­finninga­legt upp­nám. „Stundum er það hins vegar ekki maður sjálfur sem er ó­sann­gjarn,“ segir Bríet, sem hefur ætíð tekið ó­sann­girni hjá sér og öðrum föstum tökum.

„Þegar ég kynnist fyrstu ástinni þá er hann rosa mikil and­stæða við mig.“

„Þegar ég kynnist fyrstu ástinni þá er hann rosa mikil and­stæða við mig.“ Út frá því spruttu á­rekstrar milli parsins. „Þegar það var erfitt fyrir hann að ræða eitt­hvað byrjaði ég að klóra of mikið. Hann þurfti ekki að ræða þetta en mér fannst það alveg nauð­syn­legt. Við erum ólík að því leyti.“

Þrátt fyrir ó­líka per­sónu­leika var fyrsta ástin mið­punktur til­verunnar á meðan á henni stóð. „Til­finningin þegar þetta endaði var að við myndum prófa að hætta saman og mögu­lega dragast aftur saman seinna þegar við hefðum náð meiri þroska.“ Sú spá rættist þó ekki. Það sem nú situr eftir af sam­bandinu eru minningar, sektar­kennd og djúp sár sem gróa hægt, eins og Bríet syngur á plötunni.

Bríet segir tilfinningar í garð fyrri maka taka á núverandi samband sitt.
Fréttablaðið/Valli

Tekur á sam­bandið

„Þessar til­finningar taka á sam­bandið mitt í dag,“ viður­kennir Bríet. „Það er samt svo skiljan­legt því maður er bara að taka þetta allt inn.“ Nýja sam­bandið ein­kennist þó af trausti og skilningi.

„Ég var ekki til­búin þegar fréttir bárust um að ég væri komin með nýjan maka.“

Sam­bandið bar nokkuð brátt að og fengu turtil­dúfurnar ekki að fikra sig á­fram í grunn­s­ævinu heldur var þeim steypt beint í djúpið. „Við fengum náttúru­lega ekki að ráða hve­nær okkar sam­band var opin­berað,“ segir Bríet. Það rataði hratt í fjöl­miðla að parið væri farið að stinga saman nefjum. „Ég var ekki til­búin þegar fréttir bárust um að ég væri komin með nýjan maka.“

Það stóð þó ekki annað til boða en að sætta sig við að­stæður. „Þá slaknaði ég svo­lítið og hætti að reyna að hægja á þessu,“ segir Bríet, enda sé hún al­mennt ekki fylgjandi því að hægja á hlutunum. „Maður á bara að vera í til­finningunni svo lengi sem maður er ekki að særa neinn og við vorum heiðar­leg og opin með að­stæður allan tímann.“


„Ég myndi segja að það væri minn helsti kostur og galli. Að sýna öllum allt.“


Sviðs­ljósið þroskandi

Sviðs­ljósið getur þvingað fólk til að gefa meira upp en það vill, en Bríet segir það ekki hafa tekið á að hafa verið mið­punktur opin­berrar at­hygli frá á­tján ára aldri. „Mér hefur aldrei fundist þetta skrítið eða ó­þægi­legt.“ Hún segir það hafa komið fremur náttúru­lega að láta um­tal ekki hafa mark­tæk á­hrif á sjálfs­myndina. „Það hjálpar líka að mér líður ekki eins og ég sé opin­ber per­sóna.“

Með frægðinni öðlaðist Bríet skarpari sýn á eigið virði. „Það er mjög þroskandi að læra að velja og hafna og meta virði tíma manns og hamingju, um­fram aðra hluti.“ Einnig hafi verið mikil­vægt að á­kveða hverju ætti að deila með heiminum þegar svo margir fylgjast með. „Ég get ekki verið alveg í „fokkit“-gírnum og finnst ó­þarfi að deila öllu.“

Bríet hefur þó aldrei verið góð í að leyna til­finningum sínum og er þekkt fyrir að bera til­finningar sínar utan á sér. „Ég myndi segja að það væri minn helsti kostur og galli. Að sýna öllum allt.“ Hún bendir jafn­framt á það sé auð­veldara að skera í hjarta sem er ó­varið.

Þegar Bríet var aðeins 16 mánaða tók hún þátt í sinni fyrstu svitahofs athöfn.
Fréttablaðið/Valli

Ör­lögin gripu í taumana

Þegar Bríet fór fyrst að semja lög fjór­tán ára var það til­finninga­gáttin sem virkjaði sköpunar­gáfuna. „Ég átti mjög erfitt með að byrja að semja og var alltaf að reyna að finna ein­hverja for­múlu, sem virkar auð­vitað ekki.“ Hún byrjaði að læra á gítar tólf ára gömul og samdi síðan sitt fyrsta lag tveimur árum seinna. „Það lag markaði upp­hafið af þessu öllu.“

„Ég var bara að syngja og enginn var að pæla í mér. Það var mitt þægi­legasta líf.“

Ekki leið á löngu þar til hún var bókuð á off-venu­e tón­leika á Airwa­v­es þar sem pabbi hennar, Bene­dikt Elfar, spilaði undir. Ör­lögin gripu í taumana það kvöld. „Ég gleymdi gítar­snúru og þá bauðst strákurinn sem var að spila á undan til að lána mér snúruna sína og þurfti þar að leiðandi að hlusta á tón­leikana.“ Í kjöl­farið hófst sam­starf þeirra.

„Við fórum að spila saman bæði djass og loun­ge-tón­list á veitinga­stöðum á meðan fólk var að borða.“ Það var vinna Bríetar um nokkra hríð og ber hún starfinu vel söguna. „Ég var bara að syngja og enginn var að pæla í mér. Það var mitt þægi­legasta líf.“


„Þetta basl við að sópa saman ein­hverjum þúsund­köllum fyrir fimm klukku­tíma vinnu, keyra og spila og keyra, kenndi mér ó­trú­lega margt.“


Lær­dóms­ríkt basl

Síðar fékk hún vinnu við að koma ein fram, á meðan kvöld­matur var borinn á borð í Þrasta­lundi. „Þá keyrði ég alltaf í svona þrjá klukku­tíma og spilaði í þrjá klukku­tíma á gítarinn.“ Þetta gerði hún með fram skóla og vinnu í Borgar­leik­húsinu. Það var að hennar sögn lær­dóms­ríkt að halda öllum þessum boltum á lofti.

„Þetta basl við að sópa saman ein­hverjum þúsund­köllum fyrir fimm klukku­tíma vinnu, keyra og spila og keyra, kenndi mér ó­trú­lega margt.“ Þrátt fyrir að það hafi tekið sinn toll var tón­listin ætíð upp­á­halds­starf Bríetar.

Sendi gervi­skila­boð

„Á sama tíma var ég líka stundum uppi í stúdíói með hóp af strákum og við gerðum saman á­breiðu af laginu Hot Line Bling með Dra­ke.“ Sú á­breiða náði síðar til eyrna Pálma Ragnars Ás­geirs­sonar, sem er eig­andi plötu­út­gáfunnar Stop Wait Go.

„Þarna er ég orðin sau­tján ára og þegar ég heyri að Pálmi hafi sýnt þessu á­huga á­kveð ég að senda á hann gervi­skila­boð.“

„Þarna er ég orðin sau­tján ára og þegar ég heyri að Pálmi hafi sýnt þessu á­huga á­kveð ég að senda á hann gervi­skila­boð,“ segir Bríet hlægjandi. Það var menningar­nótt og hún átti að koma fram á Ís­lenska barnum um kvöldið. „Ég spyr hann þetta kvöld klukkan hvað flug­elda­sýningin eigi að vera, en segi svo strax að skila­boðin hafi átt að fara á annan Pálma.“

Pálmi svaraði þó um hæl og mætti síðan á tón­leikana um kvöldið. „Þegar þeir kláruðust spurði hann mig hvort ég myndi vilja vinna með honum.“ Alla daga síðan hefur Pálmi verið hægri hönd Bríetar og verður væntan­lega um ó­komna tíð. „Ég er honum svo ó­trú­lega þakk­lát fyrir að hafa kennt mér svona margt og hann er mjög stoltur af því hvað ég hef náð langt.“

,,Ég mun alltaf skrifa texta og semja lög sem eru beint frá hjartanu.“
Fréttablaðið/Valli

Vildi hætta við út­gáfuna

Eftir út­gáfu fjölda laga og stutt­skífa leit fyrsta breið­skífan loks dagsins ljós fyrr í þessum mánuði. Sama kvöld og platan kom út var Bríet þó við það að hætta við allt saman. „Ég fattaði allt í einu að ég vildi ekki að allir vissu allt um þetta.“ Frá því platan kom út hefur hún þó skipt um skoðun og náð að koma hausnum á réttan stað, eins og hún orðar það.

„Núna finnst mér ekki erfitt að aðrir fái að heyra mína sögu. Ég mun alltaf skrifa texta og semja lög sem eru beint frá hjartanu.“


„Núna finnst mér ekki erfitt að aðrir fái að heyra mína sögu. Ég mun alltaf skrifa texta og semja lög sem eru beint frá hjartanu.“


Erfið kveðja

Ekki leið á löngu þar til Bríeti fór að berast fjöldi skila­boða frá að­dá­endum. „Sumir skrifuðu mér að þetta hefði opnað á bældar til­finningar eða hvatt þau til að leita aftur til fyrri maka.“ Nær öll skila­boðin hafa snúist um ástina.

„Ein­hver sendi mér að fyrr­verandi kærastan hafi ekki viljað tala við hann fyrr en eftir að hafa hlustað á þessa plötu. Núna vill hún hittast og ræða saman.“ Þetta finnst henni sýna hvernig tón­listin geti snert hjarta­strengi fólks á djúp­stæðan hátt. „Mér líður eins og skila­boð plötunnar séu fal­leg og að heyra að lögin manns hafi hjálpað ein­hverjum ástar­sögum er alveg magnað.“

,,Að heyra að lögin manns hafi hjálpað ein­hverjum ástar­sögum er alveg magnað.“

Platan hefur einnig hjálpað Bríeti sjálfri að takast á við bæði for­tíð og nú­tíð. „Platan er upp­gjör við þennan tíma í lífi mínu og bara mín kveðja.“ Á henni er að finna allan skalann. „Ringul­reiðina, ástina, sorgina, missinn, söknuðinn og hvernig maður tekur þetta allt í sátt.“ Líkt og hún segir á plötunni er erfitt að kveðja al­heiminn sinn. „En það kemur alltaf nýr dagur á eftir þessum.“

Athugasemdir