Svo­kölluð ástar­svik hafa verið að færast í vöxt undan­farna mánuði og konur eru í auknum mæli orðin fórnar­lömb þeirra. Um er að ræða tegund svika þar sem svika­hrapparnir spila inn á til­finningar fórnar­lambsins og oft býr mikil vinna að baki.

„Þetta eru út­hugsuð svik og við sjáum dæmi þess að undir­búningur þeirra hefur staðið yfir í langan tíma,“ segir Her­mann Snorra­son, sér­fræðingur hjá Lands­bankanum.

Undir­búningur svika­hrappanna felst í því að vera með mjög sann­færandi síður á sam­fé­lags­miðlum með fjöl­skyldu­myndum og öðrum upp­lýsingum. Þá grafa svika­hrapparnir upp margs konar upp­lýsingar um fórnar­lömbin sem þeir reyna að nýta sér, til dæmis sára reynslu eins og makamissi eða skilnað.

Lands­bankinn hóf að skil­greina ástar­svik sér­stak­lega árið 2017 og síðan þá hafa 48 til­vik ástar­svika gegn við­skipta­vinum verið skráð. „Fyrstu átta mánuði ársins 2020 eru til­vikin orðin fleiri en allt árið 2019. Þá sjáum við líka að fleiri konur eru að verða fyrir barðinu á slíkum svikum en áður voru karlar á sex­tugs- og sjö­tugs­aldri í miklum meiri­hluta.“

Að sögn Her­manns er þó við­búið að til­vikin séu mun fleiri. „Það sem ein­kennir þessi svik er sú gríðar­lega skömm sem fórnar­lömbin upp­lifa yfir því að hafa verið blekkt með þessum hætti. Okkur grunar því að til­vikin séu mun fleiri en fólk veigri sér við að til­kynna þau.“

Tjón við­skipta­vina bankans hlaupi á tugum milljóna króna og mikil­vægt sé að við­skipta­vinir séu með­vitaðir um hættuna. „Þessi svik fylgja oft svipuðum hand­ritum og því vonumst við til að geta snúið þessari þróun við með upp­lýsingum og fræðslu,“ segir Her­mann.

Á vef Landsbankans má finna ítarlegri upplýsingar um ástarsvik og hvað ber að varast.