Það var húsfyllir og gott betur á Listasafni Íslands síðasta fimmtudag. Hrafnhildur Arnardóttir, sem jafnan gengur undir listamannsnafninu Shoplifter, opnaði loks sýningu sína Chromo Sapiens hér á landi. Sögur hafa borist manna á milli, ekki bara í listasenunni, orðrómurinn hefur farið víðar, að einstök sýning Hrafnhildar og uppsetning hafi heppnast ótrúlega vel á þessari stærstu og virtustu listsýningu í heimi sem Feneyjatvíæringurinn er.

Tók þetta alla leið

„Ég hef verið að gera tíu innsetningar síðastliðin sex ár þar sem ég hef unnið með hár. Þegar ég var valin að fara til Feneyja langaði mig að taka þetta alla leið. Gera verk þar sem maður er gjörsamlega umvafinn þessum efnum. Mig langaði að hafa verkið þannig að það sé ekkert annað í gangi, ekkert annað sem truflar. Mér þykir vænt um að sjá hvernig fólk gleymir stað og stund þegar það labbar inn í verkið,“ segir Hrafnhildur.

Hún bætir við að stór partur af hugmyndinni að baki verkinu sé að fá fólk til að dvelja ekki við annað, hvort sem það eru áhyggjur eða aðrar hugsanir. Verkið fær fólk til að vera algjörlega í stað og stund og það er dýrmætt á þeim hröðu og síbreytilegu tímum sem við lifum á.

„Ég lít smá á þetta sem öruggt rými og frí frá öllu. Að vera baðaður í fegurð og þessum undarlega efnivið. Þetta er nánast eins og dýrahamur, verkið er smá eins og þú sért að labba inn í kvið einhverrar veru. Ég vil að fólk upplifi smá eins og það sé faðmað af verkinu,“ segir Hrafnhildur.

Hugarheimur Hrafnhildar

Hún segir rauða þráðinn í verkinu vera þann að áhorfandinn sé í raun að horfa inn í hennar hugarheim og heila.

,,Ég tengi þetta líka mikið við iður jarðar. Tónlistin gerir líka það að verkum að hún kemur með ákveðinn andardrátt og tíma. Tónlistin er róandi en það er margt í gangi á sama tíma. Hátalararnir eru í barmhæð, tónlistin er því ekki beint til að hlusta á heldur meira til að upplifa. Ég vil að fólk finni fyrir hljóðbylgjunum,“ segir hún.

Hrafnhildur hefur sótt innblástur í tónlist hljómsveitarinnar Ham. Þannig hafi hún oft sett diska sveitarinnar á fóninn á meðan hún hefur unnið listaverk sín í gegnum tíðina. Í ljósi þess hafi það legið beint við að eiga í samstarfi við þá. Tónverkin eru þrjú og gerð fyrir hvert rými, en samtvinnast á þann hátt að erfitt sé eflaust fyrir flesta að átta sig á að um mismunandi verk sé að ræða.

„Fyrsti hellirinn heitir Primal Opus og er tileinkaður Ham. Hann er svartur í grunninn en samt fullt af litum inn á milli. Síðan gengur maður inn í annan sal sem heitir Astral Gloria, hann er í raun ástaróður til litahamingju og leikgleði. Í rauninni lít ég á þetta sem mjög stórt þrívítt málverk. Þetta er eins og að ganga í gegnum þoku af uppsprengdum regnboga. Úr þeim helli gengur þú inn í Opium Natura. Hann er friðsælli og meira tónaður niður. Þar er helsti liturinn hvítur og pastel, en auðvitað smá neon. Þar upplifi ég að fólk geti unnið aðeins úr öllu áreitinu sem það er búið að upplifa. Þar getur fólk róað sig niður og undirbúið sig undir að fara aftur út í raunheiminn,“ segir Hrafnhildur.

Sýning Hrafnhildar var ein sú allra vinsælasta á Feneyjatvíæringnum 2019.

Hárið í höndunum

Hugsjón Hrafnhildar er að fólkið sem upplifir verkið verði partur af því. Það má snerta, en þó vissulega af virðingu.

„Þetta er ekki brothætt, þetta er ekki gler. Ef svo væri myndi ég kannski hugsa öðruvísi. En þetta er efniviður sem við tengjum við, gærur, tuskudýr og brúður. Áferðin er þannig að það er erfitt að hemja sig, mann langar að snerta. Ég ímynda mér að það væri átakanlegt að horfa á fólk ef það mætti ekki snerta, því maður ræður hreinlega ekki við sig. Fyrir mér er það þannig að ég skil svo vel, ég er að vinna við efniviðinn og upplifi hvernig hann snertir til dæmis lófana á mér. Það er rosalega stór partur af því af hverju ég vel þennan efnivið. Mig langar að hleypa fólki inn í minn hugarheim og mér finnst þetta vera partur af því,“ segir hún.

Hrafnhildur hefur mikið unnið með hár í sínum verkum.

„Við erum alltaf með hárið í höndunum á okkur, við erum alltaf að reyna að temja það. Mér finnst mikilvægt að leyfa fólki að upplifa það sem ég upplifi þegar ég skapa verkið. Ég segi við fólk að það megi klappa verkinu eins og gömlum feimnum loðfíl. En ekki styggja hann! Ég vil að verkið nái til fólks á þann hátt að það fer á einhverja bylgjulengd sem nær til allra skilningarvita,“ segi hún.

Alvöru sýndarveruleiki

Það eru margar vísanir til náttúrunnar í verkinu, líkt og dropasteinar, þar sem litrík knippi hanga yfir fólki og Hrafnhildi langar að fólk leyfi sér að taka utan um, að faðma.

,,Með því að labba inn í verkið ertu að upplifa eitthvað sem þú leitar kannski eftir í sýndarveruleika. Hér býð ég upp á það í alvörunni. Ég held að það séu margir glaðir að fá að upplifa það, því við erum svo föst í sýndarveruleikanum og tölvum. Þetta jarðtengir mann og fær mann til þess að staldra aðeins við og finna fyrir sjálfum sér. Við erum með rosalegt hljóðverk í gangi undir húðinni, inni í okkur. Við heyrum það ekki. Ég lít á tónlistina sem einhver konar innyflanudd og litirnir smjúga inn um augun og kveikja á taugakerfinu,“ segir Hrafnhildur.

Það var húsfyllir í listasafninu þegar sýningin Chromo Sapiens var opnuð á fimmtudaginn. Fréttablaðið/Stefán Karlsson