Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað þjóðvarðarliðinu að flytja lækningavörur og setja upp sjúkraskýli í þeim þremur ríkjum þar sem flest smit af COVID-19 hafa greinst. Á þjóðvarðarliðið að koma upp tvö þúsund sjúkrarúmum í Kaliforníu, þúsund í New York og öðrum þúsund í Washingtonríki.

Alls hafa greinst meira en 35 þúsund tilfelli COVID-19 í Bandaríkjunum, þar af um 15 þúsund í New York ríki, þá hafa hátt í 500 látist af völdum veirunnar.

Frumvarp um að veita 1,4 billjónum dala í neyðaraðstoð var fellt í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þingmenn demókrata gagnrýndu það harðlega og sagt það gagnast helst stórfyrirtækjum en ekki sjúklingum. Eru nú fulltrúar öldungadeildarinnar og Hvíta hússins að funda um framhaldið.

h_55973837.jpg

„Við megum ekki láta lækninguna vera verra en sjúkdóminn“ - Donald Trump Bandaríkjaforseti

Í síðustu viku var sett á 15 daga samkomubann með það að markmiði að hefta útbreiðsluna. „Ég vil að allir Bandaríkjamenn viti að við erum að gera allt sem við getum á hverjum degi til að mæta og sigra þennan skelfilega ósýnilega óvin,“ sagði Trump við blaðamenn.

Samkvæmt heimildum CNN og fleiri miðla Vestanhafs bindur Trump miklar vonir við að hægt verði að létta á samkomubanni strax í næstu viku. Eru nú deilur innan Hvíta hússins um hvernig megi lágmarka skaðann sem faraldurinn veldur efnahagslífinu. Vilja margir samherjar forsetans að allri röskun verði haldið í algjöru lágmarki.

„Við megum ekki láta lækninguna vera verra en sjúkdóminn,“ sagði Trump á Twitter á sunnudagskvöld. Bætti hann við að búið verði að taka ákvörðun um næstu skref innan viku.

Dr. Anthony Fauci, sérfræðingur í sóttvörnum og einn helsti ráðgjafi Trump í tengslum við COVID-19, hefur verið eindreginn talsmaður samkomubanns. Í samtali við tímaritið Science á sunnudaginn, viðurkenndi hann að vera ekki alltaf sammála forsetanum. Aðspurður hvernig hann tækli tilvik þar sem forsetinn fer ekki með rétt mál á blaðamannafundum sagði Fauci að hann reyndi að leiðrétta hann.

„Ég get ekki stokkið fyrir framan hljóðnemann og ýtt honum í burtu,“ sagði Fauci. „Hann er með sinn stíl. En á atriðum sem skipta máli þá hlustar hann á það sem ég hef að segja.“

h_55375678.jpg

„Ef forsetinn bregst ekki við þá mun fólk deyja sem hefði annars lifað“ - Bill de Blasio, borgarstjóri New York

Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar, gagnrýndi stjórnvöld harðlega í viðtali við sjónvarpsstöðina NBC. Sagði hann að það væru aðeins tíu dagar eftir af læknabirgðum, ef það bærust ekki öndunarvélar þá myndi fólk láta lífið.

„Bandaríkjamenn þurfa að vita sannleikann. Þetta er að versna, bæði apríl og maí verða mun verri,“ sagði de Blasio. „Ég get ekki orðað þetta öðruvísi, „ef forsetinn bregst ekki við þá mun fólk deyja sem hefði annars lifað.“ Þetta mun verða versta efnahagslægð hér innanlands síðan í Kreppunni miklu“