„Það er oft gríðarlegt álag á bráðamóttökunni og ég dáist að því starfsfólki sem þar starfar. En auðvitað er slíkt álag hvorki sjúklingum né starfsfólki bjóðandi til lengri tíma,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Ástandið á bráðamóttökunni hefur verið til umræðu í kjölfar viðtals við Má Kristinsson sem birtist í Læknablaðinu. Þar segist Már óttast að stórslys sé í aðsigi. Þá hefur verið greint frá því að í nóvember hafi maður látist heima hjá sér skömmu eftir að hafa verið útskrifaður af bráðamóttökunni.

Atvikið var upphaflega ekki skráð og tilkynnt landlækni. „Ég tek undir áhyggjur landlæknis af vanskráðum atvikum. Það er raunar ámælisvert að ferlar séu ekki virtir í slíkum tilvikum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Páll staðfestir að atvikið hafi nú verið skráð. Það séu sérstakar ástæður að baki því að það hafi ekki verið gert strax en hann geti ekki tjáð sig nánar um þær.

„Hugur okkar er hjá aðstandendum. Þetta mál er í skoðun en það er ljóst að í miklu álagi er aukin hætta á alvarlegum atvikum. Það er áhyggjuefni sem og aðstæður allra á bráðamóttökunni þegar verst lætur,“ segir Páll.

Páll segir að óvæntum alvarlegum atvikum á spítalanum sé að fækka en það eru aðstæður sem leiða til eða hefðu getað leitt andláts eða alvarlegs skaða. Fækkunina megi ekki rekja til þess að atvik séu ekki skráð enda sé skráning atvika að batna.

Fyrstu tíu mánuði síðasta árs voru skráð níu alvarleg atvik á spítalanum en þau voru þrettán á sama tímabili árið áður. „Fjöldi þeirra er sambærilegur við sambærileg sjúkrahús erlendis.“

Páll Matthíasson segir að vandi bráðamóttökunnar sé kerfisvandi.
Fréttablaðið/Stefán

Kerfisvandi

Páll segir að staða bráðamóttökunnar sé birtingarmynd af auknu álagi í öllu heilbrigðiskerfinu. Fólk lifi lengur, landsmönnum fjölgi og við bætist fjöldi erlendra ferðamanna. Álagsaukning undanfarinna ára sé umfram það sem bætt hafi verið við í kerfið.

„Þetta undirstrikar að þetta er í rauninni kerfisvandi. Þetta er ekki vandi Landspítalans og hvað þá bráðamóttökunnar. Spítalinn er að hluta til að sinna fólki sem væri betur komið og liði betur annars staðar. Það er útskriftarvandinn sem oft hefur verið ræddur.“

Annar stór vandi tengist skorti á hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og fleiri fagstéttum. Það leiði til þess að ekki sé hægt að nýta öll rými.

„Bráðamóttakan er vel rekin eins og allur spítalinn og við vitum að þar er framúrskarandi þjónusta til að sinna bráðveikum en þetta er ekki ásættanleg legudeild,“ segir Páll.

Engar töfralausnir

Páll segir að engin augljós svör séu til við bráðavandanum núna sem hægt sé að grípa til strax. Þær lausnir sem bent hafi verið á í gegnum tíðina gildi hins vegar enn.

„Til meðallangs tíma þarf að setja nýja almenna legudeild fyrir fólk með minniháttar veikindi sem þarf stutta legu. Þetta benti úttektarskýrsla landlæknis vegna vanda bráðamóttökunnar á. Við höfum eina slíka en þurfum aðra en getum það ekki því við höfum ekki fjármagnið.“

Einnig þurfi að huga að starfskjörum hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra stétta.

„Til lengri tíma þurfum við að tryggja nýliðun hjá þessum hópum og að við höldum í það góða fagfólk sem hjá okkur er. Svo þurfum við að huga að öllu því fólki sem er hrumt og á ekki afturkvæmt heim til sín. Þar þarf að bæta í byggingu hjúkrunarrýma og finna nýjar leiðir og nota tækni til að gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér með stuðningi.“

Ekkert af þessu sé óleysanlegt en það taki tíma að koma þessu í gegn. Mikilvæg skref hafi verið stigin víða í kerfinu en meira þurfi til.

Tillögum hrint í framkvæmd

Í desember 2018 gerði embætti landlæknis umrædda úttekt á stöðu bráðamóttökunnar. Þar var að finna ýmsar tillögur til úrbóta. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að aðgerðir sem byggja á tillögunum séu þegar farnar að skila árangri.

„Við sjáum að aðgerðirnar hafa skilað sér í því nú þegar að dregið hefur úr útskriftarvandanum milli ára. Ætla má að enn meiri árangur náist í því þegar 99 rýma hjúkrunarheimili verður opnað síðar á þessu ári á Sléttuvegi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Þá muni aukning í heimahjúkrun og tilkoma sjúkrahótels einnig skila meiri árangri. Einnig ættu starfshópar sem fjalli sérstaklega um mönnun að skila tillögum að úrbótum.