„Þessi hópsýking og sviplegt fráfall föður okkar, ætti að sýna okkur öllum að veiran er óútreiknanleg og ekkert lamb að leika sér við. Við þurfum öll að gæta okkar,“ segja aðstandendur Kristmanns Eiðssonar, sem lést úr COVID-19 á Landakoti á þriðjudaginn. Fjölskyldan segist fyrst og fremst þakklát í garð starfsfólks Landakots, sem annast hafi Kristmann við erfiðar aðstæður.

Kristmann, sem meðal annars átti farsælan feril sem þýðandi og kennari, var 84 ára gamall er hann lést. Í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi Fréttablaðinu segir að þeim hafi verið verulega brugðið er fréttir bárust af sýkingunni á Landakoti. Þar lá Kristmann á sjúkrabeði og beið hjúkrunarrýmis á öðrum stað.

Kristmanni hafi verið mjög þungbært að lokað var á heimsóknir. „Í álinn syrti svo á mánudeginum síðasta, þegar við fengum þær fregnir að hann væri smitaður af kórónuveirunni og væri mjög veikur.“

Synir Kristmanns fjórir fengu að heimsækja hann tveir og tveir í einu í fullum sóttvarnaskrúða. Þótt auðsýnt hafi verið að Kristmann var afar veikur hafi fjölskyldunni verið verulega brugðið við að fregna að hann væri látinn.

„Við nánasta fjölskylda fengum að kasta á hann kveðju þá um kvöldið í tveggja manna hollum í fullum sóttvarnabúningi og erum við starfsfólkinu á Landakoti óumræðilega þakklát fyrir að hafa gefið okkur tækifæri til þess að gera það. Starfsfólk Landakots, sem áreiðanlega var sjálft í áfalli yfir sýkingunni, sýndi okkur gríðarlega velvild og hlýju í öllu ferlinu og það gerði okkur lífið örlítið léttara á þessum örlagastundum,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldu Kristmanns.