Rúmlega 21 þúsund manns voru atvinnulaus í lok ágústmánaðar samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar. 17.788 einstaklingar voru í almenna bótakerfinu og 3.483 í minnkuðu starfshlutfalli.

Almennt atvinnuleysi var 8,5 prósent í ágúst, sem er töluverð aukning miðað við síðustu þrjá mánuði á undan, og spáir Vinnumálastofnun ekki mikilli aukningu í september. Langmest atvinnuleysi var á Suðurnesjum, 16,9 prósent, og var nærri helmingur atvinnulausra þar áður starfandi í ferðaþjónustu.

Vinnumálastofnun bárust fjórar tilkynningar um hópuppsagnir í ágúst þar sem rúmlega 280 manns var sagt upp. Frá því í mars á þessu ári hefur um átta þúsund manns verið sagt upp í hópuppsögnum hjá 114 fyrirtækjum, flest þeirra eru fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Í síðasta mánuði gaf Vinnumálastofnun út 190 atvinnuleyfi til útlendinga til að starfa hér á landi, af þeim voru 142 leyfi framlengd. Flestir þeirra sem fengu atvinnuleyfi í ágúst fengu sérfræðileyfi, eða 56 manns, þá fengu 46 manns námsmannaleyfi og 27 leyfi voru veitt vegna fjölskyldusameiningar.