Ei­ríkur Val­berg, rann­sóknar­lög­reglu­maður hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, hefur leitað til lög­manns til að gæta réttar síns gagn­vart em­bætti lög­reglunnar á Suður­nesjum, í máli er tengist ráðningar­ferli innan em­bættisins árið 2018. Hann var síðar ráðinn til embættisins sumarið 2019. Frétta­blaðið hefur undir höndum bréf sem Ei­ríkur sendi yfir­stjórn em­bættisins á­samt minnis­blaði þar sem hann segir á­stæðu til að ráðningar­mál hjá em­bættinu verði skoðuð.

Frétta­blaðið hafði sam­band við Ei­rík sem stað­festi að hann hefði leitað til lög­manns vegna málsins.

Í sam­tali við Frétta­blaðið tók Ei­ríkur fram að hann væri ekki að full­yrða neitt í þessum efnum, en að á­stæða væri til að skoða hvort spilling sé rót­gróin í ráðningar­málum hjá lög­reglu í landinu meðal annars á Suður­nesjum.

Hann segir að Evrópska spillingar­nefndin (GRECO) hafi áður gert at­huga­semdir við ráðningar lög­reglu og í­trekað berist lög­reglu­mönnum fréttir af vafa­sömum ráðningum. Hugsan­lega standist þetta allt skoðun en að fullt til­efni sé nú til að út­tekt á ráðningar­málum lög­reglu fari fram. Að öðru leyti vildi Ei­ríkur ekki tjá sig, mál hans væri í far­vegi og hann ætlaði sér að ljúka því utan fjöl­miðla.

Sagt að skipta um skoðun eða lækka um tign

Í bréfi Ei­ríks til yfir­stjórnar em­bættisins kemur fram að hann hafði starfaði í tíu ár hjá fíkni­efna­deild lög­reglunnar en fyrir fimm árum síðan var starfs­fé­lagi hans og vinur var á­sakaður um spillingu af öðrum starfs­mönnum deildarinnar. „Til grund­vallar þessum al­var­legu á­sökunum var ára gömul slúður­saga um að hann þægi peninga frá þekktum brota­manni í skiptum fyrir upp­lýsingar um starf­semi deildarinnar. Upp­runi þessarar rætnu sögu var vel þekktur, skráður og marg­rann­sakaður. Enginn fótur var fyrir henni. Ég tók skýra af­stöðu í þessu leiðin­lega máli og neitaði að taka þátt þeirri múg­sefjun sem átti sér stað innan deildarinnar. Ég gat ekki, vitandi betur, tekið þátt í að saka mann rang­lega um al­var­legt af­brot,“ segir í bréfi Ei­ríks.

Þá­verandi lög­reglu­stjóra lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu hugnaðist ekki af­staða Ei­ríks og á fundi í vitna viður­vist var honum boðið að „skipta um skoðun“ ellegar missa lög­reglu­full­trúa­stöðu. Hann hafnaði boðinu og var lækkaður um tign.

„Gerði lög­reglu­stjórinn [Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir] mér ljóst á þessum fundi að ég myndi ekki hljóta fram­gang innan lög­reglunnar meðan hún réði ein­hverju. Ég hafnaði þessu fá­rán­lega boði með áður­greindum af­leiðingum,“ segir í bréfi Ei­ríks.

Hann kvartaði undan ein­elti af hálfu lög­reglu­stjóra í kjölfarið en mál kollega hans og ein­eltis­kvörtun hans tók mikið á og segist hann hafa flúið á­standið og flutt til Eng­lands. Þegar hann kom aftur heim fór hann að starfa hjá lög­reglunni á Suður­nesjum um mitt ár 2019.

Ei­ríkur skrifar að þarna hafi hann tekið ó­vin­sæla af­stöðu innan lög­reglunnar en hann stóð með manni sem nú hefur verið sýnt fram á með rann­sókn héraðs­sak­sóknara og dómi hæsta­réttar að var rang­lega á­sakaður um spillingu. „Þannig hafi ég gert það sem er rétt og svo kvartað undan ein­elti er það var notað gegn mér,“ skrifar Ei­ríkur í minnis­blaði.

Eineltismál í borginni notað gegn Eiríki við starfsumsókn

Ei­ríkur sótti um stöðu yfir­lög­reglu­þjóns hjá em­bætti lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum árið 2018 og til­greindi þar fjóra um­sagnar­aðila. Hann var metinn einn af þremur hæfustu til em­bættisins. Enginn af þeim um­sagnar­aðilum sem Ei­ríkur til­greindi var Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá lög­reglunni á Suður­nesjum en engu að síður var um­sögn frá henni um Ei­rík tekin til greina í ráðningar­ferlinu.

Ei­ríkur hlaut ekki stöðuna og óskaði eftir því að fá senda mats­skýrslu frá Helga Þ. Kristjáns­syni mann­auðs­stjóra em­bættisins, en Helgi er einn þeirra sem hefur verið í tveggja mánaðar­löngu veikinda­leyfi hjá em­bættinu á­samt Öldu Hrönn. Ei­ríkur fær þær upp­lýsingar frá mann­auðs­stjóranum að ekki væri æski­legt að senda gögnin fýsískt heldur skyldi hann senda þau í tölvu­pósti. Það var hins vegar erfið­leikum bundið því þau voru 200 blað­síður og of stór. Bjarn­ey Ann­els­dóttir sem sam­kvæmt bréfum Ei­ríks er góðs vin­kona Öldu Hrannar, hlaut stöðuna og segir Ei­ríkur í bréfi sínu til yfir­stjórnar hana vera vel hæfa í stöðuna og þess vegna hafi hann látið þar við sitja.

Í júlí sl. fékk hann hins vegar spurningu frá kollega hjá öðru em­bætti um hvers vegna hann hefði sætt sig við um­sögn Öldu Hrannar í ráðningar­ferlinu en við­komandi hafði séð um­sögnina hjá öðrum um­sækj­enda sem var með öll gögn tengd ráðningar­ferlinu. Ei­ríkur segir þetta hafa komið sér á ó­vart og hóf að vinna í málinu og fékk gögnin send innan sólar­hrings án vand­kvæða.

Um­sögn Öldu um Ei­rík er afar nei­kvæð en Ei­ríkur skilur engan veginn af hverju um­sögn Öldu er hluti af gögnunum en Alda Hrönn var aðal­lög­fræðingur lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu þegar Ei­ríkur kvartaði undan lög­reglu­stjóranum.

Umsögn Öldu Hrannar um Eirík er hann sótti um stöðu yfirlögregluþjóns hjá embætti LSS árið 2018.

„Varði hún lög­reglu­stjórann við rann­sóknina á kvörtuninni og gekk býsna hraust­lega fram í yfir­lýsingum sem byggðu margar á afar veikum grunni. Af­skipti hennar af ný­legri um­sókn minni hjá LSS [Lög­reglunni á Suður­nesjum] hefur ýft upp gömul sár,“ skrifar hann til yfir­stjórnar.

Í um­sögn Öldu segir: [Ei­ríkur] „var settur í þannig stöðu að hann tók á­kveðna stöðu með einum án þess að þekkja alla söguna. Líkar vel við hann þótt þetta hafi komið upp. Hann er að hre[y]kja sig af verkum annarra. Ei­ríkur hugsar um Ei­rík. Finnst hann ó­heiðar­legur- talar öðru­vísi við fólk en um fólk. Teymis­vinna er ekki alveg hans.“

Þegar Ei­ríkur er mátaður við starfið segir: „Hann á eftir að sanna sig sem stjórnandi – gæti mátast betur inn í hlut­verk á öðru le­veli. Á eftir að sanna að hann sé góður sam­herji og góður sam­starfs­maður.“

Þegar spurt er út í hvort at­huga­semdir hafi verið gerðar við frammi­stöðu hans, stendur: „Ekki per­sónu­lega en ekki sam­mála því hvernig hann brást við í á­kveðnu ein­eltis­máli.“

„Ég hef engar upp­lýsingar um hvers vegna var ekki haft sam­band við neinn af þeim um­sagnar­aðilum sem ég vísaði á í um­sókninni. Þá er mér einnig ó­kunnugt um hvers vegna skrif­leg um­sögn [...] um mig var ekki tekin til greina,“ skrifar Ei­ríkur sem ný­lega komst að þessari um­sögn Öldu um sig.

„Alda Hrönn leyfir sér að fara fram með ansi margar full­yrðingar um mig í þessari um­sögn. Allar þessar full­yrðingar eru ó­rök­studdar með öllu. Val­nefndin óskaði ekki eftir því að hún rök­styddi þessar full­yrðingar. Enn fremur segir val­nefndin að hún hafi metið hvort gefa ætti um­sækj­endum færi á and­mælum vegna um­sagna, en á­kveðið að gera það ekki.“

„Varðandi þessar niður­stöður val­nefndar er vísað í fylgi­gagn með skýrslunni, sem mér hefur ekki enn borist í dag. Með öðrum orðum, Alda Hrönn gat farið fram með allar þessar full­yrðingar al­ger­lega á­byrgðar­laust. Ekki síst þar sem mann­auðs­stjórinn, sem öllum starfs­mönnum LSS er ljóst að er veru­lega vil­hallur Öldu, gat með hugsan­legum lygum komið í veg fyrir að ég fengi þess gögn í hendurnar,“ skrifar Ei­ríkur enn fremur.

Í bréfinu segir Eiríkur að lokum að það al­var­legasta í málinu vera hvernig Alda Hrönn og Helgi mann­auðs­stjóri höfðu ó­eðli­leg á­hrif á ráðningu í eina af æðstu stöðum em­bættisins.

Fréttablaðið hafði samband við Öldu Hrönn sem vildi ekki tjá sig um innri málefni lögreglunnar.
Ekki náðist í Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra eða Helga Þ. Kristjánsson, mannauðsstjóra.