„Ég er enn að vinna mig úr þessu tíma­bili, sem held ég verði með erfiðustu árum lífs míns, enda erfitt að toppa,“ skrifar Ásta Guð­rún Helga­dóttir, fyrr­verandi þing­maður Pírata, í færslu á Face­book.

Þar deilir Ásta við­tali Stundarinnar við Söru Elísu Þórðar­dóttur, varaþingmann Pírata, um upp­gjör á­kveðins arms flokksins við Birgittu Jóns­dóttur, eins stofnanda Pírata, þegar kosið var í trúnaðar­ráð flokksins fyrr í þessari viku. Þar var hart tekist á og fór svo að Birgitta stormaði á dyr og sagði að „mann­orðsmorð“ hefði verið framið þar.

Ásta tekur undir með Söru, sem segir í við­talinu að Birgitta sé ekki þolandi heldur gerandi. „Það að sjá aðra tala eins og úr mínu hjarta um þetta sam­starf er á­kveðin viður­kenning á því sem ég upp­lifði. Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér,“ skrifar Ásta sem sat á þingi fyrir Pírata árin 2015 til 2017.

Óreiðan sem bjó til einræðisherra

„Þetta ýfir upp á­falla­streituna sem ég hef verið að vinna við síðan ég hætti á þingi. Þetta lýsir bara á­gæt­lega því sem ég þurfti að díla við í tvö ár af sam­starfi við þessa konu, sem var það erfitt að það þurfti að kalla til vinnu­staðar­sál­fræðings,“ skrifar Ásta.

Hún segir að Birgitta hafi viljað stjórna í ó­reiðu innan flokksins. Hún hafi fært mörkin til í gríð og erg og sett ó­raun­veru­legar kröfur á aðra. Al­mennt giltu aðrar reglur um hana en aðra Pírata.

Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingmaður Pírata hér í forgrunni, segir Birgittu Jónsdóttur vera geranda en ekki þolanda.
Fréttablaðið/Jóhanna

„Þessi ó­reiða bjó til ein­ræðis­herra þar sem hinn frekasti fékk að ráða, og þegar það var reynt að spyrna við því, þá fór allt í upp­nám,“ skrifar Ásta og viður­kennir að um­fjöllunin ýfi upp gömul sár. Hún vilji helst fá að gleyma þessu og horfa fram veginn.

„Þetta er kannski á­kveðið upp­gjör, sem hjá mér byrjaði með því að labba inn í þing­flokk sem var svo þrunginn ó­sættis að það þurfti að kalla á vinnu­staðar­sál­fræðing, ein besta á­kvörðun sem ég tók á mínum stutta ferli sem þing­maður.“

„Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér“

Hún kveðst enn eiga í góðu sam­skiptum við all­flesta fyrr­verandi sam­starfs­fé­laga, bæði úr flokknum og af þingi. Enn­fremur haldi hún á­fram að breiða út boð­skap Pírata og þá er hún enn skráð í flokkinn.

„En ég get sagt með vissu að ef ég hefði verið til­nefnd í trúnaðar­ráð þá hefði ég ekki þegið þá til­f­nefningu af þeirri ein­faldri á­stæðu að fyrr­verandi þing­menn flokksins, sama hversu vel þeir eru liðnir, eru ekki hlut­lausir aðilar og til þess fallnir að gegn slíkri trúnaðar­stöðu,“ skrifar Ásta. Það sé mergur málsins.

„Ég er enn að vinna mig úr þessu tíma­bili, sem held ég verði með erfiðustu árum lífs míns, enda erfitt að toppa. Það að sjá aðra tala eins og úr mínu hjarta um þetta sam­starf er á­kveðin viður­kenning á því sem ég upp­lifði. Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér,“ skrifar hún að lokum.