Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins kvaddi sér hljóðs í störfum þingsins á Alþingi í dag til að ræða virðingu Alþingis. Hann gagnrýndi sérstaklega framkomu bæði fjölmiðla og samþingmanna sinna í garð ráðherra þegar misst hafa nána ættingja sína.

Ásmundur tók tvö dæmi, hið fyrra um Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.

„Nýlega missti hæstvirtur heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, föður sinn. Ráðherra og fjölskylda hennar fékk ekki svigrúm til að syrgja látinn föður og afa. Ráðist var á embættisfærslur ráðherrans í fjölmiðlum og hér í þingsal þegar hún hefði átt að fá frið að syrgja með fjölskyldu sinni,“ sagði Ásmundur í ræðu sinni.

Sigríði engin grið gefin

Síðara dæmið tók Ásmundur af fyrrverandi dómamálaráðherra Sigríði Á. Andersen:

„Fyrir réttum tveimur árum birti Mannréttindadómstóll Evrópu dóm í svokölluðu landsdómsmáli. Það varð nokkrum þingmönnum er tilefni til að gagnrýna þáverandi hæstvirtan dómsmálaráðherra mjög harkalega strax og fréttin flaug um ljósvakana. En sama dag lést móðir ráðherrans í faðmi fjölskyldunnar og mátti þola harða gagnrýni þingmanna og fjölmiðla allan daginn og engin grið gefin.“

Það er mat Ásmundar að einmitt þeir þingmenn sem oftast og mest tali um virðingu Alþingis séu verstir. Þeir dragi virðingu þingisns niður með orðum sínum og framkomu í garð samþingmanna sinna.

„Það er of langt gengið, virðulegi forseti, þegar svona er þjarmað að ráðherrum og þingmönnum af samþingsmönnum og fjölmiðlafólki á sorgarstundum.“

Óviðeigandi klæðaburður vanvirðing við þingið

Í ræðu sinni minntist Ásmundur einnig nýlegra orða Þorsteins Sæmundssonar þingmanns Miðflokksins um klæðaburð þingmanna.

„Sorglegt hvernig þingmenn komast upp með að sýna vanvirðingu við Alþingi með óviðeigandi klæðaburði.“

„Þar er ég sammála háttvirtum þingmanni og sorglegt hvernig þingmenn komast upp með að sýna vanvirðingu við Alþingi með óviðeigandi klæðaburði,“ sagði Ásmundur en að hans mati verður traust á störfum þingmanna aldrei meira en sú virðing sem þeir sýna hver öðrum.