Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hélt opnunarerindi samnorrænnar barnaverndarráðstefnu sem opnaði í dag í Hörpu í beinu framhaldi af afmælisráðstefnu Barnahússins. Ásmundur fór yfir viðamiklar breytingar á barnaverndar- og velferðarkerfinu sem hann og ráðuneyti hans vinna nú að. Hann segir að slíkar breytingar taki eflaust tíu til fimmtán ár að innleiða en að hann sjái það fyrir sér að árið 2030 verði ekkert land betra en Ísland fyrir börn að vera á. 

Ásmundur sagði í erindi sínu frá þeirri vinnu sem ráðuneyti hans hefur unnið að síðan hann tók við embætti og hvernig hann sér framhald barnaverndarkerfisins fyrir sér á Íslandi.

Kortleggja kerfið og leggja aukna áherslu á samvinnu

Fyrsta verkefnið var að ráða verkefnastjóra til ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að vinna markvisst að endurskoðun félagslega kerfisins eins og það snýr að börnum og fjölskyldu. Tilkynnt var um það í maí síðastliðnum. Ásmundur segir að næsta skref sé að

„Það sem við erum búin að gera frá því ég kom í ráðuneytið er að kortleggja þessi mál og ég finn að það er þörf fyrir breytingar. Það er þörf fyrir það í velferðarkerfinu okkar að meiri áhersla sé lögð á börn snemma til að koma í veg fyrir meiri skaða seinna meir. Ég hef mjög djúpa sannfæringu fyrir því að við eigum að þróa okkur í þá átt,“ segir Ásmundur Einar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að til að ná því markmiði þurfi að gera ýmsar breytingar á lagaumhverfinu og sú vinna hafi hafist í mái með 400 manna ráðstefnu þar sem sérfræðingar fóru yfir það hvað þeim finnist þurfi að gera. Samhliða því hafi fyrirtækið Expectus verið fengið til að kortleggja barnaverndarkerfið, bæði áskoranir og fara yfir tölfræði með því að skoða til dæmis þróun í tilkynningum til barnaverndar.

Þverpólitískur starfshópur þingmanna fer yfir löggjöf

Ásmundur segir að kortlagning eigi að liggja fyrir í haust ásamt fleiri kortlagningu svo næsta skref geti hafist, sem er að skipa þverpólitískan hóp þingmanna úr öllum flokkum sem eiga að hafa það markmið að fara ofan í löggjöfina og aðra þætti sem snúa að börnum og gera þannig breytingar að kerfið allt vinni saman með barnið í fyrsta sæti,“

Hann segir að eins og staðan er í dag að þrátt fyrir að mörg sveitarfélög hafi verið að vinna flott verkefni í þágu barna þá vanti upp á samstarf og samhæfingu. Hann vinni því einnig að því að fá bæði ráðuneyti og sveitarfélög til að vinna samhliða þessari vinnu þannig að þessi hugsun komist áfram. „Við eigum að geta sett börnin númer eitt og unnið með það þótt við séum í ólíkum stofnunum eða stjórnsýslustigum,“ segir Ásmundur.

„Ef við getum gert breytingar á velferðarkerfinu okkar sem að ná þessu markmiði er ég sannfærður um að til lengri tíma, því þetta tekur auðvitað kannski tíu til fimmtán ár að uppskera svona, að við getum breytt lífi ansi margra barna og fjölskyldna á jákvæðan hátt,“ segir Ásmundur.

Leggja fram breytingar á löggjöf á næsta þingi

Hann segir að hann vonist til þess að breytingar á löggjöf verði lagðar fram á þinginu sem hefst núna í næstu viku og klárað á þessu ári en segir að stefnumótunarbreytingar sem hann tali um séu til langs tíma og sjái fyrir sér að árið 2030 verði þær að fullu innleiddar.

„Ef okkur tekst þetta er ég sannfærður um að við getum gert mjög jákvæðar breytingar og það sem mér hefur fundist ánægjulegast að heyra að það er gríðarlega jákvæðni alls staðar um um að koma inn í þessa vinnu. Þetta verður ekki gert með einum ráðherra eða ráðuneyti, það verða allir að leggja af mörkum og mér finnst ég finna fyrir jákvæðni alls staðar,“ segir Ásmundur. 

Tilkynnti óvænt um opnun Barnahúss á Akureyri

Ásmundur tilkynnti óvænt á afmælishátíðinni að ráðuneyti hans, dómsmálaráðuneyti og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefðu veitt Barnahúsi fjögurra milljóna króna styrk til að opna útibú Barnahúss á Akureyri, en hingað til hefur það aðeins verið starfrækt í Reykjavík.

„Barnahús er búið að vera að vinna frábært starf undanfarin ár og og haslað sér völl og ég held að það sé gríðarlega jákvætt og verður mikil bót á Norðurlandi,“ segir Ásmundur að lokum. 

Sjá einnig: Fá styrk til að opna Barnahús á Akureyri