Ásmundur Einar Daðason, Mennta- og barnamálaráðherra, vissi ekki af brottflutningi írösku fjölskyldunnar sem handtekinn var í gærkvöldi og færð í gæsluvarðhald. Um það hvort hann hafi áður heyrt af aðgerðinni neitar hann því.

„Nei ekki nema bara í fjölmiðlum sem ég las núna í morgun,“ sagði Ásmundur Einar.

Frétta­blaðið greindi frá því í gær­kvöldi að lög­regla hefði hand­tekið fimm manna íraska fjöl­skyldu sem vísa átti úr landi.

Fjöl­skyldan sem færð var í gæslu­varð­hald, inniheldur meðal annars tvær ungar konur sem handteknar voru þegar þær voru á leið í skólann og fatlaðan mann sem notast við hjóla­stól.

Um það hvort honum þykir aðgerðir lögreglu mannúðlegar sagðist hann ekki hafa nægar upplýsingar til að svara því.

„Nema bara það sem við höfum séð í fjölmiðlum og vænti þess að við munum ræða það og kalla eftir upplýsingum um þetta mál. Þannig hef ég ekkert frekar en það sem var í fjölmiðlum í nótt,“ segir hann.

Um það að stúlkurnar hafi verið handteknar er þær voru á leið í skóla sagði hann að öllum sem ynnu með málefni barna væri nauðsynlegt að vinna hagsmunamat.

„Við höfum gengið eftir því að þau séu unnin rétt. Þetta er ný grein sem kom í útlendingalögin á sínum tíma og við höfum gengið á eftir henni og það ber öllum stjórnvöldum að gera það vegna þess að ráðherra barnamála er ekki með allar upplýsingar mála hverju sinni og sá bara þessar fréttir í fjölmiðlum,“ segir Ásmundur Einar.