Félags- og barnamálaráðherra segir erfitt að mynda nýja ríkisstjórn fyrr en niðurstaða er fengin um alþingiskosningarnar í Norðvesturkjördæmi.
„Formenn flokkanna hafa haldið utan um þessar stjórnarmyndunarviðræður og þeir hafa haldið þessu nálægt sér, sem er gott upp á traust þeirra á millum. Samt hafa þeir líka að einhverju leyti upplýst okkur,“ segir Ásmundur Einar Daðason.
„Ég bíð eins og aðrir spenntur eftir að sjá hvað kemur út úr viðræðunum. Ég treysti mínum formanni vel til að leiða þau mál til lykta.“
Ásmundur Einar vann kosningasigur fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík og hefur skorað hátt í vinsældamælingum. Verður hann áfram ráðherra?
„Við skulum sjá til. Ef ný ríkisstjórn verður til í næstu viku kemur það í ljós.“
En telur hann hægt að mynda ríkisstjórn á meðan staðan í Norðvesturkjördæmi er óljós?
„Nei, ég held að það sé mikilvægt að fá úr því skorið hverjir eru raunverulegir þingmenn og það er beðið eftir því. Á meðan sinnum við okkar störfum en vonandi kemur svo að því í næstu viku að við sjáum næstu skref í þessu,“ segir ráðherrann.