Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, leggur áherslu á vald kjósenda á kjördegi. „Þetta er dagur þjóðarinnar, ekki stjórnmálamanna, og fólkið á að fá að kynna sér áherslur flokkana og kjósa óáreitt og eftir það er það verkefni stjórnmálamanna að vinna úr stöðunni,“ segir hann.
Dagurinn er búinn að vera skemmtilegur hingað til, segir Ásmundur, og gott hljóð í fólkinu. „Þegar þú spurð stjórnmálamann að því hvernig hljóðið er í fólkinu á eigin kosningaskrifstofu í eigin kosningakaffi þá er það alltaf gott. Það væri skrítið ef það væri ekki þannig,“ segir Ásmundur og slær á létta strengi.
Ásmundur segist finna fyrir jákvæðni í flokksmeðlimum. „Ég finn það að það er jákvæðni gagnvart þeim verkum sem við höfum verið að vinna að. Á sama tíma finn ég að það er jákvæðni fyrir þeim verkum sem við viljum vinna að í framhaldinu og byggja á því sem við höfum gert.“
Þá segir Ásmundur það ekki vera hans að meta hvernig fer heldur sé framhaldið í höndum kjósenda og hvetur hann fólk til að nýta kosningarétt sinn.
„Ég ætla að fylgja eftir kosningabaráttunni alveg til klukkan tíu. Þá ætla ég að fara í sturtu og skipta um föt og fara svo í kosningavöku. Svo verð ég þar með fólkinu inn í nóttina,“ segir Ásmundur.