Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun taka ákvörðun um hvort sérstök rannsókn muni fara fram á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði. Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingmann Pírata.
Nýlega stigu sex konur fram í Stundinni og lýstu grófu ofbeldi sem þær urðu fyrir af hálfu forstöðumanns meðferðarheimilisins á árunum 1997 til 2007. Sara spurði hvort það væri ekki rétt að efna til rannsóknar á meðferðarheimilinu og forstöðumanni þess.
Katrín sagði að félags- og barnamálaráðherra hafði upplýst ríkisstjórnina um að hann væri með þessi mál til skoðunar og hann muni í kjölfarið fara yfir þau á vettvangi ríkisstjórnar og að Ásmundur muni funda með hópi kvenna sem voru vistaðar á Laugalandi, samkvæmt Stundinni í dag verður sá fundur 12. febrúar næstkomandi.
„Það hvort rétt sé að efna til rannsóknar og nú er það svo að þá mun að sjálfsögðu ráðast af því hvaða mat hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra leggur á málið,“ sagði Katrín.
Katrín sagði að forsætisráðuneytið hefur verið að fara yfir fyrirkomulag á rannsókna á frásögnum um ofbeldi innan opinberra stofnanna þá sérstaklega vegna vistheimilisins í Arnarholti. Ráðuneytið mun skila velferðarnefnd minnisblað um það núna í dag um hvernig slíkum rannsóknum hefur verið háttað og hvernig væri hægt að hátta þeim.
„Þar eru auðvitað í stöðunni að nýta þær heimildir sem til staðar eru í lögum hvað varðar rannsóknarnefndir Alþingis en það er líka hægt að setja á laggirnar sérstakrar stjórnsýslunefndir en þá þarf sérstaka lagastoð undir slíkar rannsóknarnefndir,“ sagði Katrín.
„Það hefur vakið með mér vangaveltur í raun og veru hvort eðlilegra væri að við værum með sérstakri umfjöllun um opinberar rannsóknarnefndir en ekki eingöngu rannsóknarnefndir á vegum Alþingis því að vissulega er það svo að við erum að sjá ýmis mál koma upp þar sem kallað er eftir á rannsóknum og sumt á kannski heima framkvæmdarvalds megin og annað Alþingis megin,“ bætti hún við.
Sara þakkaði forsætisráðherra fyrir greinargóð og ítarleg svör en sagði það miður að við Íslendingar eigum langa sögu af ofbeldi og mismun gagnvart fötluðum og börnum og spurði hún Katrínu hvernig væri hægt að koma í veg fyrir að þetta muni gerast aftur? Þá mögulega með óháðu ytra eftirliti sem færi í frumkvæðisathuganir?
Katrín sagði mikilvægt að hafa í huga þau lagafrumvörp sem eru nú til meðferðar í þinginu um málefni barna, þar sem í raun er verið að leggja til gerbreytingu á því stofnanaumhverfi sem lýtur að málaefnum barna og barnaverndar.
„Ég hef þá trú að þessi mál verði mikið framfaraskref þegar kemur að málefnum barna í samtímanum. Það er eitt verkefni og ég held að við séum að gera rétta hluti og ég vona svo sannarlega að þingið muni ljúka afgreiðslu þessara mála,“ sagði Katrín.