Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, og Ber­steinn Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri UNICEF á Ís­landi skrifuðu undir samning í dag um þátt­töku fé­lags­mála­ráðu­neytisins í verk­efninu Barn­væn sveitar­fé­lög UNICEF en þetta kemur fram í frétt á vef félagsmálaráðuneytisins. Samningurinn var undir­ritaður í til­efni af þrjá­tíu ára af­mæli sátt­málans þann tuttugasta nóvember næst­komandi.

Verk­efnið er undir for­merkjunum Barn­vænt Ís­land en mark­mið verk­efnisins er að ís­lensk stjórn­völd og öll sveitar­fé­lög muni á næsta ára­tug hafa hafið mark­vissa inn­leiðingu Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. Sam­hliða þátt­töku í verk­efninu verður sveitar­fé­lögum boðið að nýta sér svo­kallað mæla­borð um vel­ferð barna og greint þau gögn sem eru til staðar á mark­vissan hátt.

Mikilvægt skref í þágu réttinda barna á Íslandi

„Með barna­sátt­málanum höfum við komið á afar mikil­vægum al­þjóð­lega viður­kenndum ramma um rétt barna og skuld­bindum okkur til að standa vörð um þau réttindi,“ sagði Ás­mundur Einar við undir­ritun samningsins og tók fram að börn þyrftu að njóta þeirra réttinda sem koma fram í sátt­málanum á hverjum degi. „Sam­hliða er unnið að breytingum hjá Stjórnar­ráðinu með það að mark­miði að í náinni fram­tíð verði Ís­land allt barn­vænt,“ sagði Ás­mundur að lokum.

Fram­kvæmda­stjóri UNICEF tók í svipaða strengi og sagði að með samningnum væri Ís­land að skipa sér í fremstu röð. „Aukin á­hersla á réttindi barna í sveitar­fé­lögum getur stuðlað að já­kvæðri byltingu fyrir börn hér á landi og aukið ný­sköpun í þjónustu­veitingu sveitar­fé­laga fyrir börn. Við erum viss um að það efli einnig sam­tal á milli kyn­slóða, sam­tal sem byggir á gagn­kvæmri virðingu,“ sagði Berg­sveinn við undir­ritunina.

Samningurinn var undir­ritaður í til­efni af þrjá­tíu ára af­mæli sátt­málans þann tuttugasta nóvember næst­komandi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þrjátíu prósent fái viðurkenningu fyrir árslok 2021

Akur­eyri og Kópa­vogur eru fyrstu sveitar­fé­lögin sem hafa tekið þátt í verk­efninu og hafið inn­leiðingu sátt­málans og mun Hafnar­fjörður taka þátt í verk­efninu á næstu vikum. Stefnt er að því að sveitar­fé­lögum sem taka þátt í verk­efninu fjölgi um sex árið 2020 og tólf árið 2021.

Þannig er mark­miðið að þrjá­tíu prósent sveitar­fé­laga á Ís­landi hafi fengið viður­kenningu sem Barn­væn sveitar­fé­lög UNICEF fyrir árs­lok 2021. Hjör­dís Eva Þórðar­dóttir, sér­fræðingur í inn­leiðingu Barna­sátt­málans, hefur verið ráðin verk­efnis­stjóri Barn­væns Ís­lands og hefur hún störf hjá fé­lags­mála­ráðu­neytinu síðar í vikunni.