Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra hlaut í dag Viður­kenningu Barna­heilla – Save the Children á Ís­landi fyrir störf í þágu breytinga í mála­flokkum barna og ung­menna.

Í til­kynningu frá Barna­heillum segir að hann hafi í em­bætti fé­lags- og barna­mála­ráð­herra sett mál­efni barna í fyrsta sæti svo um munar.

„Hann lagði fram fjögur frum­vörp auk þings­á­lyktunar­til­lögu í mál­efnum barna fyrr á þessu ári sem sam­þykkt voru á Al­þingi sem hafa þau í för með sér gjör­byltingu í mál­efnum barna og ung­menna. Börnin eru í brenni­depli og öll þjónusta og kerfin í kringum börnin mun vera sam­þætt og öllum hindrunum rutt úr vegi. Sam­hliða þessum stóru breytingum hafa ýmis verk­færi verið þróuð til að styðja við þessa nýju nálgun og hugsun í mál­efnum barna. Má þar nefna mæla­borð sem safnar og greinir töl­fræði­gögn til að kalla fram betri mynd af stöðu barna í sam­fé­laginu og hvaða verk­efni er brýnt að takast á við og for­gangs­raða.“

Herra Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, flutti á­varp og af­henti viður­kenninguna.
Mynd/Barnaheill
Guð­mundur Stein­gríms­son fyrr­verandi stjórnar­maður í stjórn Barna­heilla stýrði at­höfninni.
Mynd/Barnaheill

Barna­heill veita ár­lega viður­kenningu fyrir sér­stakt fram­lag í þágu barna og mann­réttinda þeirra í tengslum við af­mæli Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viður­kenningin er af­hent til að vekja at­hygli á Barna­sátt­málanum og mikil­vægi þess að ís­lenskt sam­fé­lag standi vörð um mann­réttindi barna. Barna­sátt­málinn er leiðar­ljós í öllu starfi Barna­heilla.

Af­hending viður­kenningarinnar fór fram í veislu­sal veitinga­staðarins Naut­hóls í dag. Harpa Rut Hilmars­dóttir, for­maður Barna­heilla, flutti á­varp og til­kynnti hver hlyti viður­kenninguna.

Os­car Dagur Hernandez Arons­son, nemandi í Kletta­skóla flutti frum­samið ljóð.
Mynd/Barnaheill
Elsa Margrét Þórðar­dóttir, nemandi í Öldu­túns­skóla flutti á­varp fyrir hönd ung­menna.
Mynd/Barnaheill