Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hyggst bjóða sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður í næstu Alþingiskosningum. Ásmundur Einar er nú oddviti í Norðvesturkjördæmi. Framsóknarflokkurinn náði ekki inn manni í Reykjavík norður í síðustu kosningum. Hann segir í færslu á Facebook að þetta sé gert að vel ígrunduðu máli.

„Það kann að virðast sérstök ákvörðun að fara úr því sem næst öruggu þingsæti í Norðvesturkjördæmi, þar sem Framsókn á sér langa og farsæla sögu, í framboð þar sem flokkurinn hefur glímt við ýmsar áskoranir í undanförnum kosningum. Að baki þessari ákvörðun liggur metnaður til að ná fram stórum pólitískum breytingum í íslensku samfélagi,“ segir hann.

„Á undanförnum árum hef ég lært enn betur mikilvægi þess að fylgja hjartanu í leik og starfi. Það var af þeirri ástæðu sem ég ákvað í upphafi þessa kjörtímabils að leggja allt undir og berjast fyrir stórum kerfisbreytingum í málefnum barna og barnafjölskyldna, róttækum aðgerðum fyrir ungt og tekjulágt fólk á húsnæðismarkaði ásamt fleiri málum. Þessi vinna og þessar aðgerðir undirstrika mikilvægi þess að við breytum forgangsröðun í íslenskum stjórnmálum.“

Segir hann að Framsóknarflokkurinn verði ekki leiðandi afl nema styrkja sig í Reykjavík.

„Þetta verður áskorun en ég trúi á breytingar og það er ástæða þess að ég er tilbúinn að leggja allt undir.“