Ás­mundur Einar Daða­son, mennta- og barna­mála­ráðherra, hefur boðað skóla­stjórn­endur á fund um við­brögð við kyn­ferðis­of­beldi í fram­halds­skólum. Þetta kemur fram á vef Stjórnar­ráðsins.

„Í ljósi um­ræðu um kyn­ferðis­of­beldi í fram­halds­skólum og við­brögð við þeim vill mennta- og barna­mála­ráðu­neytið bregðast við á­kalli um bætt verk­lag og skýrari ramma í mála­flokknum. Ein­stök mál sem upp hafa komið í fram­halds­skólum, varpa ljósi á við­varandi vanda­mál sem bregðast verður við. Skóla­sam­fé­lagið­allt verður að taka þessi mál föstum tökum og leita allra leiða til að gera skólana örugga fyrir nem­endur, kennara og starfs­fólk,“ segir í bréfi Ás­mundar til skóla­stjórn­enda.

„Fram­halds­skólar skulu hafa heild­stæða stefnu um það hvernig fyrir­byggja eigi að líkam­legt, and­legt eða fé­lags­legt of­beldi eigi sér stað í skóla­starfi sam­kvæmt 33. gr. laga um fram­halds­skóla. Þann 7. septem­ber 2021 sendi þá­verandi mennta- og menningar­mála­ráð­herra bréftil skóla um mikil­vægi þess að innan hvers skóla sé til við­bragðs­á­ætlun til að taka á því þegar upp kemur kyn­ferðis­legt eða kyn­bundið of­beldi innan skólanna. Margir skólar hafa þegar sett upp við­bragðs­á­ætlun og starfa sam­kvæmt henni,“ segir þar enn fremur.

Ás­mundur segir að ráðu­neytið muni á næstu dögum taka tvö mikil­væg skref til að að­stoða fram­halds­skóla við að inn­leiða við­bragðs­á­ætlun gegn of­beldi í sínum skólum. Ráðu­neytið mun kynna fyrir­mynd að við­bragðs­á­ætlun sem skólarnir geta haft til hlið­sjónar við gerð á­eigin­við­bragðs­á­ætlun.

„Jafn­framt mun ráðu­neytið boða til vinnu­fundar með helstu hag­aðilum til að rýna á­ætlunina og eiga gagn­virkar um­ræður um helstu á­lita­mál. Mikil­vægt er að rödd nem­enda heyrist í þeirri vinnu sem fram undan er og þeirra sjónar­mið höfð til hlið­sjónar við gerð á­ætlana. Stjórn­endur skóla og hags­muna­aðila eru jafn­framt hvattir til þess að ræða þessi mál­efni á sínum vett­vangi og nýta til að efla um­ræðu, að­gerðir og vitundar­vakningu í skóla­sam­fé­laginu. Mark­mið okkar allra er að sjá til þess að allir nem­endur upp­lifi öryggi og að tekið sé á málum af festu,“ skrifar Ás­mundur.

Leggur heimavinnu fyrir skólastjórnendur

Ásmundur óskar síðan eftir því að skóla­stjórn­endur svari þrem spurningum og sendi svörin til ráðu­neytisins:

  1. Er til heild­stæð stefna og/eða við­bragðs­á­ætlun sem fjallar um verk­lag skóla­stjórn­enda þegar upp koma til­kynningar um kyn­ferðis­lega á­reitni og kyn­ferðis­of­beldi meðal nem­enda? Ef svo er, er hún birt og að­gengi­leg með sýni­legum hætti á vef skólans? Hve­nær var hún upp­færð síðast?
  2. Hefur áður­nefnd skýrsla starfs­hóps ráð­herra verið rædd á vett­vangi skólans með virkri að­komu starfs­fólks og nem­enda?
  3. Er haldin sér­stök skrá yfir til­vik þegar upp kemur grunur um kyn­ferðis­brot meðal nem­enda skólanseða þegar slík brot eru til­kynnt?