Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók fram úr Guðlaugi Þór Þórðarsyni í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þetta kom fram í beinni útsendingu á Facebook síðu Sjálfstæðisflokksins núna klukkan 23:00. Hildur Sverrisdóttir er nú komin upp fyrir Brynjar Níelsson, í fjórða sætið.
Talin hafa verið 4857 atkvæði. 2333 atkvæði falla nú til Áslaugar. Guðlaugur Þór er með 3291 atkvæði í 1.-2. sæti. Í þriðja sæti er enn Diljá Mist með 1895 atkvæði. Í fjórða sætið með 1906 atkvæði er Hildur Sverrisdóttir. Þá skaust Birgir Ármannsson yfir Brynjar Níelsson og er nú í 5. sæti.
Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrr í kvöld vantaði Hildi aðeins 17 atkvæði til að komast upp fyrir Brynjar Níelsson, sitjandi þingmann og hrifsa af honum fjórða sætið. Hún var brött þegar blaðið heyrði í henni fyrr í kvöld og nú er ljóst að hún er í 4. sæti en Brynjar í sjötta.
Þrettán manns eru í framboði í prófkjörinu sem er sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmi. Greint verður frá næstu tölum klukkan 23:00 í kvöld eða mögulega fyrr, gangi talning vel.
Áslaug Arna þakkaði fyrr í kvöld fylgjendum sínum fyrir stuðninginn í Facebook færslu. „Ótrúlega stolt af sjálfri mér, fólkinu mínu og baráttunni. Þvílíkur kraftur,“ segir Áslaug meðal annars. Næstu tölur verða birtar á miðnætti.
Nýjustu tölur kl. 23:00:
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra efst með 2.333 atkvæði.
Í öðru sæti er Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 3.291 atkvæði í 1. – 2. sæti.
Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir með 1.895 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.
Í fjórða sæti er Hildur Sverrisdóttir með 1.906 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.
Í fimmta sæti er Birgir Ármannsson með 2.326 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.
Í sjötta sæti er Brynjar Níelsson með 2.605 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.
Í sjöunda sæti er Kjartan Magnússon með 2.308 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.
Í áttunda sæti er Sigríður Á. Andersen með 2.120 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti.
Fréttin hefur verið uppfærð.