„Þetta hef ég aldrei sagt við nokkurn mann,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins á Facebook. Þar vitnar hún í færslu sem Kristjón Benediktsson birti á Facebook þar sem hann leggur Áslaugu orð í munn. Hún segir Kristjón fara með ósannindi.

„Stúlkukindin sem er ritari Sjálfstæðisflokksins hitti nýverið gamalreyndan eldri mann; burðarstoð í flokknum og öflugur grasrótarliðsmaður. Alltaf unnið vel fyrir sinn flokk. Þessi ágæti maður lýsti áhyggjum af núverandi stöðu mála. ,,Mér gæti ekki staðið meira á sama hvað þér finnst".
Þetta er svarið sem hann fékk. Hann sagði mér þetta sjálfur; þetta er frá fyrstu hendi,“ skrifar Kristjón á Facebook síðu sinni og bætir við að umræddur ónefndur eldri maður hafi verið klökkur og að honum hafi fundist leiðinlegt að flokkur hans væri „kominn í þessa stöðu.“

Hann segir að meint orðaval Áslaugar væri í miklu uppáhaldi hjá henni og bætir við: „Kannski er þetta allt hvítvínið með humrinum.“

Áslaug segist aldrei hafa mælt þessi orð við nokkurn mann og að hún hafi ekkert á móti málefnalegum ágreiningi.

„Það er ekkert að málefnalegum ágreiningi og gagnrýni en ég dreg mörk við ósannindi. Ég veit ekki hvor þeirra á sök á þeim, Kristjón eða þessi meinti máttarstólpi í Sjálfstæðisflokknum, en í það minnsta er þetta hér með leiðrétt. Kveðja Stúlkukindin“.

Tilkynntur til lögreglu

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristjón kemst í fréttir fyrir Facebook færslur sínar. Í fyrra birti hann mynd af borgarstarfsmanni á Facebook vegg sinn þar sem skoðanabræður Kristjóns kölluðu hana meðal annars „brundfés“ og „BITCH“.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tilkynnti einnig Kristjón til lögreglu vegna hótanir hans í garð hennar á samfélagsmiðlum í fyrra.