Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, segir ekki tímabært að ræða sérstakar aðgerðir eða niðurstöður skoðunar hennar á embætti ríkislögreglustjóra, þar með talið starfslok starfandi ríkislögreglustjóra, Haraldar Jóhannessonar.

Fullyrt var í Morgunblaðinu í dag að Áslaug hefði starfslok hans til skoðunar frá við­tali sem birtist fyrst á RÚV við dóms­mála­ráð­herra fyrr í vikunni.

„Allt málið er til skoðunar og það var til þess sem ég vísaði í við­tali mínu við Ríkis­út­varpið. Það er ekki tíma­bært að ræða efnis­at­riði þeirrar skoðunar og hvað þá mögu­lega niður­stöðu hennar eða ein­stakar að­gerðir,“ segir Ás­laug Arna í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að hún muni gefa sér tíma til að setja sig inn í málið.

„Ég mun gefa mér þann tíma sem þarf til að setja mig inn í málið og tryggja að öll með­ferð málsins sé vönduð og yfir­veguð,“ segir Ás­laug Arna.

Haraldur Jóhannesson er ríkislögreglustjóri

Lög­reglu­menn gáttaðir á við­talinu

Ríkis­lög­reglu­stjóri sagði í við­tali við mbl að ef til starfs­loka hans kæmi þá væri hann til­búinn til að fjalla ítar­lega um það sem hefur gengið á bak við tjöldin. Greint var frá því í dag á vef Frétta­blaðsins að lög­reglu­menn víða um land væru gáttaðir á við­talinu.

„Hann má ekki koma fram með þessum hætti. Hann á að vera auð­mjúkur og kurteis, þetta er ekki flókið,“ segir Arin­björn Snorra­son for­maður Lög­reglu­fé­lags Reykja­víkur, í sam­tali við Frétta­blaðið.