Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari hefur ákveðið að gefa ekki lengur kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis.

Áslaug var ein fjögurra sem forsætisnefnd Alþingis tilkynntu að gæfu kost á sér í embættið en Tryggvi Gunnarsson tilkynnti í febrúar að hann hyggist fara á eftirlaun þegar kjörtímabili hans lýkur í vor.

Áslaug greinir frá ákvörðuninni á Facebook síðu sinni í dag og segir að sér hafi orðið ljóst að forsætisnefnd hafi ekki verið að leita að manneskjum með hennar bakgrunn og hæfni.

„Þegar sérstök gagnbeiðni barst frá ráðgjafarnefnd forsætisnefndar sá ég að þau eru ekki að leita að manneskju með minn bakgrunn og hæfni. Í beiðninni var óskað eftir við okkur sem gefið höfðum kost á okkur í starfið að senda úrlausnir eða álit sem við höfðum samið á sl. þremur árum og við teldum falla undir hlutverk og starfssvið umboðsmanns Alþingis. Utan þessa ramma féllu því m.a. dómar frá starfstíma mínum sem héraðsdómari og stjórnsýslukærur og erindi / kvartanir til umboðsmanns Alþingis sem ég hef unnið fyrir skjólstæðinga mína sem lögmaður,“ segir í færslu Áslaugar.

Hún þakkar þeim sem hvöttu hana til að gefa kost á sér og segir ferlið hafa verið sér gagnlegt þrátt fyrir þessa ákvörðun.

Ég vil þakka þeim mörgu vinum mínum sem hvöttu mig til að gefa kost á mér í starf umboðsmanns Alþingis eftir að...

Posted by Áslaug Björgvinsdóttir on Sunnudagur, 11. apríl 2021

Nýr umboðsmaður kosinn í maí

Tryggvi Gunnarsson tilkynnti í febrúar síðastliðnum að hann hyggist fara á eftirlaun eftir rúma tvo áratugi í embætti og tekur nýr umboðsmaður til starfa 1. maí næstkomandi. Hann verður kosinn af Alþingi í samræmi við lög.

Undirnefnd forsætisnefndar Alþingis sem er skipuð Steingrími J. Sigfússyni, Guðjóni S. Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur mun gera tillögu til forsætisnefndar og forsætisnefnd leggur svo eftirmann til við Alþingi á þingfundi.

Þrír héraðsdómarar gefa kost á sér

Þrír gefa nú kost á sér í embætti umboðsmanns, Ástráður Haraldsson, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Skúli Magnússon, allir héraðsdómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Ástráður Haraldsson er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur ítrekað sóst eftir embætti dómara við Landsrétt en hann er einn umsækjenda sem fengið hefur bætur frá ríkinu vegna Landsréttarmálsins.

Kjartan Bjarni Björgvinsson er einnig dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur en er tímabundið settur umboðsmaður Alþingis við hlið Tryggva Gunnarssonar, sem vinnur nú að gerð námsefnis í stjórnsýslurétti fyrir opinbera starfsmenn.

Skúli Magnússon hefur verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2004. Hann var skipaður dómstjóri við réttinn. Skúli hefur töluvert komið við sögu í því ferli sem staðið hefur í rúman áratug um breytingar á stjórnarskránni og samdi til að mynda það frumvarp sem forsætisráðherra lagði fram fyrr í vetur um breytingar á stjórnarskrá.