Nýr for­sætis­ráð­herra Noregs og leið­togi norska Verka­manna­flokksins, Jonas Gahr Støre, til­kynnti nýja ríkis­stjórn í morgun. Konur eru í fyrsta skipti í meiri­hluta ráð­herra­stóla í Noregi, tíu af ní­tján. Þar á meðal er hin 28 ára gamla Emili­e Enger Mehl sem tekur við starfi dóms­mála­ráð­herra, yngst allra.

Haft var eftir Støre á vef norska ríkisútvarpsins að hann hafi hlakkað til dagsins hins vegar hafi voðaverkin í Kongsberg í gærkvöld óhjákvæmilega varpað skugga á hann.

Ríkis­stjórnin er minni­hluta­stjórn Verka­manna­flokksins og Mið­flokksins og er þetta fyrsta vinstri­stjórnin eftir átta ára valda­tíð hægri­flokka.
Verka­manna­flokkurinn fékk ellefu ráðu­neyti og Mið­flokkurinn átta.

Yngsti dómsmálaráðherra sögunnar

Norska pressan vekur at­hygli á yngsta dóms­mála­ráð­herra sögunnar, Mehl. Hún er nú yngsti dóms­mála­ráð­herra sögunnar og veltir þar með Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur úr sessi en Ás­laug var á 29 aldurs­ári þegar hún tók við sæti dóms­mála­ráð­herra hér á landi í septem­ber árið 2019.

Mehl hefur lokið masters­námi í lög­fræði og sat í utan­ríkis- og dóms­mála­nefnd í Noregi.

Støre er full­viss um að hún valdi verk­efninu vel. En hann hefur stórar á­ætlanir fyrir dóms­mála­ráðu­neytið og segir að Mehl muni skoða mikil­vægar að­gerðir sem snúa að heilindum og öryggi norska ríkisins.

Erna Solberg fráfarandi forsætisráðherra þakkaði fyrir sín átta ár og óskaði komandi ríkisstjórn góðs gengis.