„Hug­myndin kviknaði þegar ég var að hugsa hvernig ráðu­neyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. Með þessu kynnist ég enn betur starf­semi sem tengist ráðu­neytinu um allt land og fæ tæki­færi til að prófa að starfa annars staðar en í Reykja­vík,“ segir Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, í frétta­til­kynningu sem barst fjöl­miðlum í morgun.

Í til­kynningunni kemur fram að Ás­laug Arna muni stað­setja skrif­stofu sína víðs vegar um landið á kjör­tíma­bilinu. Á hverri starfs­stöð verður hún með opna við­tals­tíma þar sem öll á­huga­söm eru vel­komin í stutt, milli­liða­laust spjall um mál­efni á borði há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytisins. Þá verða fyrir­tækja­heim­sóknir hluti af dag­skrá ráð­herra.

Hér má sjá dag­setningar og stað­setningu á skrif­stofum ráð­herra um land allt í haust. At­hygli er vakin á því að dag­setningar eru birtar með fyrir­vara um breytingar á dag­skrá ráð­herra. Stað­setningar skrif­stofu ráð­herra árið 2023 verða aug­lýstar síðar.

  • 18. ágúst – Snæ­fells­bær
  • 29. ágúst – Mos­fells­bær
  • 5. septem­ber – Ár­borg
  • 12. septem­ber – Hafnar­fjörður
  • 22. septem­ber – Múla­þing
  • 28. septem­ber – Akur­eyri
  • 10. októ­ber – Ísa­fjörður
  • 13. októ­ber – Reykja­nes­bær
  • 20. októ­ber – Vest­manna­eyjar
  • 27. októ­ber – Akra­nes

Í til­kynningu frá há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu kemur fram að frá því að ráðu­neytið tók til starfa í febrúar hafi ráðu­neytið verið opið fyrir störfum óháð stað­setningu.

„Í því felst að starf­semi ráðu­neytisins er ekki bundin við einn á­kveðin stað þrátt fyrir að aðal­starfs­stöð þess sé stað­sett í Reykja­vík. Þannig geta starfs­menn ráðu­neytisins unnið að heiman eða frá þeim stað á landinu sem best hentar hverju sinni. Ráð­herra er þar engin undan­tekning og með því að stað­setja skrif­stofu ráð­herra um víðs vegar um landið gefst mikil­vægt tæki­færi til aukinnar tengsla­myndunar og sam­starfs við há­skóla, stofnanir, fyrir­tæki, sveitar­fé­lög og ein­stak­linga um land allt,“ segir í frétta­til­kynningunni.