„Þú mátt endilega biðja forsætisráðherra um að hringja,“ sagði Elínborg Harpa Önundardóttir aðgerðarsinni hjá No Borders Iceland þegar hún rétti aðstoðarmanni forsætisráðherra yfirlýsingu og undirskriftalista til stuðnings Maní, 17 ára trans stráks sem vísa átti úr landi í gær áður en hann fékk taugaáfall og var lagður inn á Barna- og unglingageðdeild.

Mótmælendur komu saman fyrir framan dóms­mála­ráðu­neytið í há­deginu í dag og gengu að Stjórnar­ráðs­húsinu þar sem brott­vísun írönsku fjöl­skyldunnar var mót­mælt harð­lega. Upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins tók við undirskriftalista fyrir hönd dómsmálaráðherra.

Foreldrar Maní, Ardeshir og Shokoufa, voru á meðal mótmælenda.

Shokoufa og Ardeshir á mótmælunum fyrir framan Stjórnarráðið í dag. Maní er inn á Bugl eftir að hann fékk taugaáfall.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Þakklát fyrir stuðninginn

„Ég sá Maní í gær. Hann var lagður inn á Bugl eftir að hann fékk taugaáfall. Hann er undir miklu álagi. Við komum hér saman í dag til að biðja yfirvöld um að leyfa okkur að vera hér áfram og að fá lifa áfram í friðsamlegu samfélagi,“ sagði Shokoufa, móðir Maní, í samtali við Fréttablaðið.

„Það eina sem við viljum er að Maní fái að búa hér áfram og lifa lífi sínu. Ég veit að hann er ánægður hér og hefur eignast marga vini. Samtökin 78 hafa verið einstaklega hjálpsamlega og þau mætti hingað til að sýna okkur stuðning.“

„Ég er svo þakklát að allt þetta fólk mætti til að styðja okkur,“ sagði Shokoufa, móðir Maní.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðspurð hvort einhverjir ráðherrar hafi haft samband við fjölskylduna svarar Shokoufa neitandi: „Enginn hefur talað við okkur beint. Lögfræðingur okkar er í sambandi við þau að reyna að fá svör en við höfum ekkert heyrt frá því í gær.“

Shokoufa horfði þá yfir mótmælendahópinn og sagði: „Ég er svo þakklát að allt þetta fólk mætti til að styðja okkur. No Borders, Samtökin 78 og allir vinir okkar. Ég og eiginmaður minn erum svo þakklát fyrir þau. Maní er líka þakklátur. Það er ótrúlegt að búa í svona góðu samfélagi með vingjarnlegu fólki,“ segir Shokoufa. „Ég er svo ánægð hér á Íslandi. Maní er í skóla og við hjónin erum á íslensku námskeiði. Hér eigum við góða vini og ég vona að stjórnvöld muni endurhugsa málið.“

„Engin viðbrögð hafa borist. Áslaug Arna var náttúrulega upptekin að djamma sunnudagskvöldið,“ segir Elínborg Harpa í samtali við Fréttablaðið. DV greindi frá því í gær að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi verið stödd á árshátíð laganema í HÍ kvöldið sem Maní var lagður inn á geðdeild eftir áfallið. Hún var þar sem heiðursgestur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var upptekin og gat því ekki tekið við undirskriftalistanum en aðstoðarmaður hennar tók við honum fyrir hönd forsætisráðherra. Elínborg Harpa segir að enginn fyrirvari hafi verið á brottvísun fjölskyldunnar og því hafi ekki verið mikill fyrirvari á mótmælunum.

„Yfirvöld stigu ekki inn í á sunnudaginn heldur fékk Maní taugaáfall og þurfti að leggjast inn á Bugl. Hann er þar ennþá,“ segir Elínborg Harpa.

„Ísland sendir hinsegin fólk úr landi“

Aðspurð hvort mótmælin haldi áfram þar til stjórnvöld stigi inn í svarar Elínborg játandi: „Við munum halda áfram að mótmæla þessari brottvísun. Það er augljóst að mikil samstaða er í samfélaginu varðandi mál Maní og fjölskyldu hans. Það sem er svo sorglegt við þetta mál er það hefur augljóslega verið brotið á rétti Maní til að tjá sig. Andmælaréttur hans hefur verið brotinn. Útlendingastofnun, Kærunefnd útlendingamála, dómsmálaráðherra og forsætisráðherra vita þetta. Þau vita að hann fékk ekki réttláta málsmeðferð. Samt sem áður stígur enginn inn í.“

No Bor­ders Iceland, Sam­tökin 78, q-fé­lag hin­segin stúdenta, Solaris, Réttur barna á flótta og Trans Ís­land stóðu að mót­mælum dagsins.

„Svona mál með trans barn hef ég ekki séð áður en það stendur einnig til að brottvísa samkynhneigðum manni frá Kongó úr landi. Ísland sendir hinsegin fólk úr landi,“ segir Elínborg Harpa.

Elínborg Harpa hjá No Borders réttir aðstoðarmanni forsætisráðherra undirskriftalistann.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson