„Þessi niðurstaða veldur vissulega vonbrigðum því við höfðum vænst þess að fyrri dómi yrði snúið til samræmis við okkar málflutning. Margt athyglisvert virðist vera í þessum dómi og rökstuðningi með honum sem ber að skoða nánar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í svari til Fréttablaðsins um niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu í dag.
Áslaug Arna segir að sú staðreynd að yfirdeildin hafi tekið málið til meðferðar sé staðfesting á því að um þýðingarmikið lögfræðilegt álitaefni hafi verið að ræða sem fullt tilefni var til að fá óyggjandi niðurstöðu um.
„Það varð að eyða allri óvissu um stöðu Landsréttar og dómaranna sem þar voru skipaðir við stofnun hans. Yfirdeildin tekur aðeins örfá mikilvæg mál til úrlausnar hverju sinni og í þessu tilviki var komin upp sú staða að fyrri dómur MDE gekk þvert á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands sem er æðsti dómstóll í íslenskum dómsmálum,“ segir Áslaug Arna.
Hún bendir á að niðurstaða MDE hafi ekki sjálfkrafa bein áhrif hér á landi.
„Niðurstöður MDE hafa ekki sjálfkrafa bein áhrif hér á landi og yfirdeildin hefur með réttu metið það sem svo að mikilvægt væri að fara yfir forsendur og niðurstöður fyrri dómsins. Nú liggur sú niðurstaða fyrir,“ segir Áslaug Arna.
Hún segir að þau muni nú rýna í dóminn ásamt sérfræðingum og gera síðar nánari grein fyrir afleiðingum hans.
„Við tökum þessa niðurstöðu að sjálfsögðu alvarlega enda erum við aðilar að MSE og dómar MDE hafa áður haft mikil áhrif á þróun íslensks réttar en ég endurtek: Þeir hagga ekki sjálfkrafa úrlausnum og túlkun íslenskra dómstóla á íslenskum lögum og er ekki bindandi að landsrétti. Við búum í réttarríki þar sem enginn vafi má ríkja um sjálfstæði dómstóla og almenningur verður að geta borið fullt traust til starfsemi þeirra,“ segir Áslaug Arna að lokum.