Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, vill að há­skólar fái aukið svig­rúm til að inn­rita nem­endur. Há­skólunum sjálfum sé best treystandi til að meta hvort um­sækj­endur hafi nægi­lega þekkingu eða reynslu til að setjast á skóla­bekk, hvort sem við­komandi hafi til­tekna próf­gráðu eða ekki. 

„Í stað þess að um­sækj­endur með stúdents­próf hafi for­gang inn í hér­lenda há­skóla ættu há­skólar að meta til jafns aðra þekkingu og reynslu um­sækj­enda, til dæmis úr at­vinnu­lífinu,” segir Ás­laug. 

Ás­laug hyggst leggja fram frum­varp eftir að þing kemur saman á ný í lok janúar. „Það er verið að skoða það að koma á lag­girnar fag­há­skóla­stigi sem kæmi þá mögu­lega til móts við þessar þarfir. Þar til því hefur verið lokið tel ég rétt að leggja fram þessa breytingu til að auka sveigjan­leika kerfisins og auka svig­rúm há­skólanna til að taka inn fjöl­breyttari nem­enda­hóp,” segir hún. 

Níu þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins lögðu fram frum­varp síðasta haust til að jafna stöðu sveins­prófs og stúdents­prófs þegar kæmi að inn­ritun í há­skóla. Ás­laug var fyrsti flutnings­maður frum­varpsins og segist hafa fengið afar já­kvæð við­brögð. Nýja frum­varpið gangi lengra og sé eins konar við­bót við það fyrra. 

„Í of mörgum til­fellum þá er fólki sem á erindi í há­skóla­nám gert of erfitt fyrir að komast að. Með þessu frum­varpi þá væri það á­fram há­skólanna að setja inn­töku­skil­yrðin en þeir yrðu þá ekki eins bundnir af til­teknum próf­gráðum um­sækj­enda og fengju aukið svig­rúm til að taka inn hæfa og góða nem­endur með ó­líkan bak­grunn,“ segir Ás­laug og bætir við:

„Einn helsti á­vinningurinn af þessu er að breyta við­horfi fólks gagn­vart iðn­námi eða annarri reynslu og þekkingu sem margir á­vinna sér á vinnu­markaði eða í öðrum störfum. Við megum ekki loka fyrir tæki­færi fram­tíðarinnar með því að sníða fólkið eftir kerfinu, heldur á kerfið að vera sniðið að fólkinu.“