Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, nýr dómsmálaráðherra, fór í ræðu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokkins í dag yfir stöðu flokksins og al­mennings­á­lit á flokksins. Hún þakkaði það traust sem flokks­fólk sýndi henni þegar hún var 25 ára gömul og sagði það benda til þess að flokkurinn treysti ungu fólki. Hún sagði að hún væri í dag að kveðja em­bætti sem skipti hana miklu máli og að hún væri þakk­lát að henni hefði verið falið nýtt hlut­verk, sem dóms­mála­ráð­herra.

Hún sagði að sem ritari hefði hún lagt á­herslu á bætta upp­lýsinga­gjöf og sam­skipti, á­herslu á að auka sam­skipti kjörinna full­trúa við flokks­menn og hefði heim­sótt nærri öll fé­lög landsins. Hún fjallaði sér­stak­lega um hring­ferð flokksins sem var farið í fyrr á þessu ári, sem er fyrsta hring­ferð flokksins.

„Allt sem ég hef gert hefur verið til að auka sam­skiptin, breikka á­sýnd flokksins og sýna öflugt starf okkar,“ sagði Ás­laug Arna.

Hún sagði að starf flokksins um allt land væri öflugt og að hún hefði notið þess að hitta flokks­fólk um allt land.

„Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur sýnt það í verki að ungu fólki er treyst., Það er ekki inni­halds­laust tal á há­tíðar­stundum. Í þessum efnum, sem og öðrum, sýnir Sjálf­stæðis­flokkurinn styrk sinn og við sjálf­stæðis­menn við meinum það sem segjum og fram­kvæmum það sem við lofum,“ sagði Ás­laug.

Áslaug Arna þakkaði það traust sem henni hefur verið sýnt innan flokksins.
Fréttablaðið/Valli

Rými fyrir margs konar skoðanir

Hún sagði að innan flokksins rúmist margs konar hugsanir og skoðanir og að það væri styrk­leiki flokksins, en ekki veik­leiki hans. Hún sagði að for­ysta flokksins ætti að fagna því þegar tekist er á innan flokksins um ó­líkar skoðanir.

„Þannig eflist flokkurinn og flokks­starfið verður líf­legra og skemmti­legra og það er merki um pólitískt sjálfs­traust að búa til jarð­veg fyrir ó­líkar hug­myndir sem eiga allar sam­eigin­legt að tryggja grunn­hug­sjón,“ sagði Ás­laug.

Hún sagði að flokkurinn ætti fullt erindi enn í dag miðað við á­herslur flokksins við stofnun og enn í dag.

„Flokkur sem treystir ein­fald­lega ein­stak­lingum til að taka skyn­sam­legar á­kvarðanir sjálft og skapar tæki­færi fyrir alla,“ sagði Ás­laug.

Þá fjallaði Ás­laug um stöðu flokksins sem víða hefur verið fjallað um undan­farnar vikur. Hún sagði á­nægju­legt að svo margir hafi á­hyggjur opin­ber­lega af stöðu hans.

„Á meðan sumir saka for­ystu flokksins um ein­angrunar­hyggju, eru aðrir sem saka hana um al­gera eftir­gjöf og undir­gefni við al­þjóða­stofnanir,“ sagði Ás­laug

Hún sagði að ekkert af því sem fólk segði ætti við rök að styðjast, en það væri á­gætt að fólk hefði skoðun á flokknum, fólkinu í honum og stefnu hans og sagðist vonast til þess að það kæmi aldrei sá dagur sem að fólk hætti að hafa á­hyggjur af flokknum.

„Það er dagurinn sem að flokkurinn hættir að hafa á­hrif og það er enginn hér sem vill upp­lifa þann dag,“ sagði Ás­laug.

Þau eigi sjálf að skilgreina flokkinn og gildi hans

Hún sagði að það ætti ekki að láta öðrum eftir að skil­greina flokkinn. Það ættu þau að gera sjálf.

„Sjálf­stæðis­flokkurinn hvorki ein­angrunar­flokkur né undir­lægja al­þjóða­kerfis,“ sagði Ás­laug.

Ás­laug sagði mikil­vægt fyrir flokkinn, ætli hann að vera á­fram burðar­ás í ís­lensku sam­fé­lagi, að eiga sam­skipti við alla hópa.

„Það gerum við með ó­líkum hætti, en sam­skiptin munu og verða að eiga sér stað við fólkið í landinu,“ sagði Ás­laug.

Hún sagði að til þess væru margar og fjöl­breyttar leiðir, sem þau ættu að nýta sér sem flestar.

Ás­laug sagði að þrátt fyrir að hún láti af störfum sem ritari þá myndi hún enn láta innra starf flokksins sig varða.

„Ég mun aldrei hika við að segja og standa með minni skoðun, berjast fyrir nauð­syn­legum breytingum og standa vörð um sam­eigin­leg gildi okkar,“ sagði Ás­laug Arna.

Hún sagði að þau myndu öll vinna saman að því að standa vörð um gildin og lauk ræðu sinni svo á orðunum „Sjálf­stæðis­flokkurinn er fram­tíðin“.

Hægt er að horfa á ræðu Ás­laugar í heild sinni hér að neðan.