Einn eftirlýstasti glæpamaður heims, kínversk-kanadíski vímuefnasmyglarinn Tse Chi Lop, var handsamaður af lögreglu í Amsterdam í Hollandi á föstudaginn. Talið er að hann hafi stýrt gríðarstóru glæpaveldi sem er allsráðandi á vímuefnamarkaði í Asíu og Kyrrahafssvæðinu. Hann er grunaður um að hafa smyglað miklu magni af vímuefnum til Ástralíu, Japans og Nýja-Sjálands, auk fleiri landa.
„Tse Chi Lop er sambærilegur við El Chapo eða jafnvel Pablo Escobar,“ sagði Jeremy Douglas sem starfar hjá vímuefna- og glæpadeild Sameinuðu þjóðanna í samtali við Reuters árið 2019.
Hinn 57 ára gamli Tse Chi Lop er talinn vera höfuðpaurinn í samtökum sem þekkt eru sem „Fyrirtækið“ og eru þau umsvifamestu í vímuefnasmygli í Asíu og Kyrrahafssvæðinu. Velta þeirra er metin 17 milljarðar á ári. Vímuefnamarkaðurinn á svæðinu er talinn velta um 70 milljörðum dollara á ári.
Tse Chi Lop hefur verið eftirlýstur í áratugi og ávallt tekist að vera einu skrefi á undan yfirvöldum, þar til nú. Hann var við það að setjast upp í flugvél á Schipol-flugvelli í Amsterdam, á leið til Kanada, þegar lögregla hafði hendur í hári hans samkvæmt Vice. Áströlsk yfirvöld vilja fá hann framseldan þangað en talið er að samtök hans beri ábyrgð á um 70 prósentum þeirra vímuefna sem til landsins koma á ári hverju.
Aðgerðin sem leiddi til handtöku Tse Chi Lop var samstarfsverkefni lögregluyfirvalda í Kína, Makaó, Taílands, Malasíu, Víetnam, Mjanmar, Hong Kong og Ástralíu. Hollenska lögreglan hefur ekki gefið út hver staða málsins er, utan þess að hann hafi verið tekinn höndum.