Einn eftir­lýstasti glæpa­maður heims, kín­versk-kanadíski vímu­efna­smyglarinn Tse Chi Lop, var hand­samaður af lög­reglu í Amsterdam í Hollandi á föstu­daginn. Talið er að hann hafi stýrt gríðar­stóru glæpa­veldi sem er alls­ráðandi á vímu­efna­markaði í Asíu og Kyrra­hafs­svæðinu. Hann er grunaður um að hafa smyglað miklu magni af vímu­efnum til Ástralíu, Japans og Nýja-Sjá­lands, auk fleiri landa.

„Tse Chi Lop er sam­bæri­legur við El Chapo eða jafn­vel Pablo Escobar,“ sagði Jeremy Dou­glas sem starfar hjá vímu­efna- og glæpa­deild Sam­einuðu þjóðanna í sam­tali við Reu­ters árið 2019.

Hinn 57 ára gamli Tse Chi Lop er talinn vera höfuð­paurinn í sam­tökum sem þekkt eru sem „Fyrir­tækið“ og eru þau um­svifa­mestu í vímu­efna­smygli í Asíu og Kyrra­hafs­svæðinu. Velta þeirra er metin 17 milljarðar á ári. Vímu­efna­markaðurinn á svæðinu er talinn velta um 70 milljörðum dollara á ári.

Tse Chi Lop hefur verið eftir­lýstur í ára­tugi og á­vallt tekist að vera einu skrefi á undan yfir­völdum, þar til nú. Hann var við það að setjast upp í flug­vél á Schi­pol-flug­velli í Amsterdam, á leið til Kanada, þegar lög­regla hafði hendur í hári hans sam­kvæmt Vice. Áströlsk yfir­völd vilja fá hann fram­seldan þangað en talið er að sam­tök hans beri á­byrgð á um 70 prósentum þeirra vímu­efna sem til landsins koma á ári hverju.

Að­gerðin sem leiddi til hand­töku Tse Chi Lop var sam­starfs­verk­efni lög­reglu­yfir­valda í Kína, Makaó, Taí­lands, Malasíu, Víet­nam, Mjanmar, Hong Kong og Ástralíu. Hollenska lög­reglan hefur ekki gefið út hver staða málsins er, utan þess að hann hafi verið tekinn höndum.