Verið er að leggja lokahönd á stofnun Atvinnufjélagsins, hagsmunafélags sem helgað verður starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sigmar Vilhjálmsson, sem situr í undirbúningsstjórn félagsins, segir að lagt sé upp með að félagið fái sæti við kjarasamningaborðið.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að atvinnurekendur sem hafi viljað stofna ný samtök hafi áður rætt við ASÍ. „Við höfum sagt að okkar aðalsamningaaðili sé Samtök atvinnulífsins. Við höfum litið á það sem okkar hagsmuni að atvinnurekendur séu sameinaðir í einum atvinnurekendasamtökum,“ segir hún. „Hingað til höfum við samið við SA og ætlumst til þess að SA semji heldur ekki við gul stéttarfélög.“

Sigmar segir að það sé ekki síður aðstöðumunur og stéttaskipting hjá fyrirtækjum. „Líta þeir þannig á að það séu sömu hagsmunir hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og hjá stórfyrirtækjum? Er það ekki eins og að líta svo á að það sama eigi að ganga yfir allar stéttir?“