Ungliðahreyfing Alþýðusambandsins, ASÍ-UNG, styður ekki frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytt fyrirkomulag fæðingarorlofs, ólíkt ASÍ. „Nú liggur fyrir frumvarp um breytingu á fæðingarorlofslögum. ASÍ hefur komið að vinnu við þetta frumvarp og styður það, en það gerir ASÍ-UNG ekki,“ sagði Ástþór Jón Ragnheiðarson, varaformaður ASÍ-UNG, í ræðu sinni þegar 44. þing ASÍ fór fram.

Ástþór sagði að raddir unga fólksins innan ASÍ hefðu mátt vera sýnilegri en það ylti líka á því hve sýnileg og áhrifamikil samtökin leyfðu þeim að vera. Í svo stóru máli sem fæðingarorlofið er væri slæmt að unga fólkið innan ASÍ fengi ekki að taka þátt. „Það vill nefnilega svo til að þó svo að við eigum að sjá til þess að málefni ungs fólks séu ávallt á dagskrá, fáum við ekki alltaf að taka þátt í þeim málum, sem er ákaflega slæmt, sérstaklega þegar um er að ræða málefni af þessari stærðargráðu,“ sagði Ástþór.

„Ég held að ekki sé hægt að finna grímulausara dæmi um skort á samstarfi og samráði heldur en akkúrat í þessari vinnu. Málefni sem varðar ungt fólk, fyrir ungt fólk, en án aðkomu ungs fólks.“

Sagði hann að með stuðningi sínum væri ASÍ að styðja við forréttindahópa. „Við eigum að vera málsvari jaðarsettra hópa, en ekki forréttindahópa.“