„Mér finnst gott að komið sé ráðuneyti vinnumarkaðsmála og vænti góðs samstarfs við nýjan ráðherra í þeim efnum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ um stjórnarsáttmálann.
Hún lýsir hins vegar vonbrigðum með að mörg atriði í sáttmálanum séu endurvinnsla loforða frá 2019 í tengslum við við kjarasamningana, loforð sem ekki hafi verið efnd.
Þá segist Drífa sakna tölulegra markmiða í húsnæðismálakaflanum, markmiða um uppbyggingu í almenna kerfinu og svo framvegis. „Ég sakna ákveðinna tölusettra viðmiða í þessum sáttmála.“
Hvað varðar vinnumarkaðsmálin segir í stjórnarsáttmálanum að efla skuli embætti ríkissáttasemjara.
„Ég veit að það hefur verið draumur fólks að vega að verkfallsrétti, við munum ekki sætta okkur við neinar slíkur hömlur á eina tæki vinnandi fólks til að ná kjarabótum,“ segir Drífa.
„Hins vegar erum við til i að styrkja embætti ríkissáttasemjara til úrbóta í kjaradeilum,“ bætir hún við.
Eftirfarandi eru áhersluatriði ríkisstjórnarinnar um vinnumarkaðsmál:
- Stuðlað verður að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.
- Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.
- Til að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði verða starfskjaralög endurskoðuð og varnir gegn kennitöluflakki styrktar með viðeigandi lagabreytingum.
- Farið verður í aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.
- Skoðuð verða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað og settar fram tillögur um viðbrögð og aðgerðir til að mæta þeim.
- Byggt verður á aðgerðum í aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna varðandi úttekt, forgangsröðun og áherslur til umbóta í sí- og endurmenntunarkerfinu til að tryggja tækifæri fólks til menntunar.
- Löggjöf og regluverk á sviði vinnumarkaðar verður skoðað í samhengi við þróun vinnumarkaðarins og breytinga á ráðningarformi milli launafólks og atvinnurekenda.