Alþýðusamband Íslands fagnar niðurstöðu Félagsdóms er varðar uppsögn trúnaðarmanns Eflingar.

„Miðstjórn ASÍ fagnar því að Félagsdómur hafi með niðurstöðu sinni í máli nr. 6/2022, skýrt og styrkt réttarstöðu trúnaðarmanna skv 11. gr. laga nr 80/1938 og tekið af allan vafa af um að hópuppsagnir vegna skipulagsbreytinga geti ekki réttlætt uppsögn trúnaðarmanna,“ þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ vegna málsins.

Greint var frá niðurstöðu Félagsdóms í gær en samkvæmt niðurstöðu dómsins var uppsögn Eflingar á trúnaðarmanni Eflingar, Gabríel Benjamin, ólögmæt.

Þá segir jafnframt að Efling hafi brotið gegn ákvæðum í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2019 með því að meina honum aðgang að starfsstöð félagsins, starfsaðstöðu trúnaðarmanns og þeim félagsmönnum VR á skrifstofu eflingar hverra hagsmuna honum bar að gæta.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Gabríel hins vegar ekki skilja dóminn. Hann snúi ekki að skipulagsbreytingunni sem Efling framkvæmdi.

„En ég kem því þá hér með á fram­færi: Þetta er ekki dómur um þá skipu­lags­breytingu sem við fram­kvæmdum, nauð­syn­lega, rétt­mæta og árangurs­ríka. Hún er lög­mæt. Hún stendur. Og því fær ekkert breytt,“ sagði Sólveig Anna í færslu á Facebook-síðu sinni í gær en þar vandaði hún Gabríel ekki kveðjurnar.