Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni vegna ásakana Bergsveins Birgissonar um ritstuld í nýjustu bók hans, Eyjan hans Ingólfs

„Síðustu dagar hafa verið mjög sérstakir hjá mér þar sem ég hef verið þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni,“ svona hefst færsla Ásgeirs.

Hann segist ekki vilja bregðast efnislega við ásökunum Bergsveins fyrr en hann hafi fengið ráðrúm til að lesa bók hans, Leitin að svarta víkingnum.

Ásgeir segist þó vilja nefna nokkra hluti vegna málsins. Bók Bergsveins sé ekki hefðbundin sagnfærði heldur „það sem höfundur kallar sjálfur í formála „röksaga“ eða „ímyndun grundaða á þekkingu“. Þá eða eins og segir í eftirmála að verkið sé „formtilraun, viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar og nota bæði heilahvelin samtímis. Útkoman er blendingur.“

Bókin ekki fræðirit

„Hvaða mína bók varðar Eyjan hans Ingólfs þá er hún ekki fræðirit og hefur aldrei verið kynnt sem slík. Hún er til að mynda ekki með heimildaskrá. Ég get þeirra heimilda sem ég nota í neðanmálsgreinum en þessa bók má alls ekki líta á sem tæmandi fræðirit um landnám Íslands. Sagnfræðingar hafa ágætis orð fyrir bækur af þessu tagi sem „leikmannsþankar“. Þessi bók er sprottin upp af einlægum söguáhuga mínum,“ segir Ásgeir um bók sína í færslunni.

Þá segist Ásgeir einnig ekki hafa vonast eftir neinum efnalegum ávinningi með ritun bókarinnar. Hann verði ánægður ef hún standi undir framleiðslukostnaði.

Bækurnar afar ólíkar

Að sögn Ásgeirs er bók hans, Eyjan hans Ingólfs, veikburða tilraun til að setja fram tilgátu um það hvernig þjóðskipulag myndaðist á Íslandi.

„Ég fæ ekki betur séð en að að bækur okkar Bergsveins séu ákaflega ólíkar bæði hvað varðar nálgun, umfjöllun og niðurstöður. Ég held að öllum verði það ljóst sem lesa báðar bækurnar.“

Að lokum segist Ásgeir aldrei áður hafa verið vændur um stuld.

„Enda væri það ákaflega heimskulegt stöðu minnar vegna að reyna slíkar kúnstir með bók líkt og Leitina að Svarta víkingnum sem var metsölubók á Íslandi.“

Þá hafi hann engan áhuga á því að lýsa yfir eignarrétti á einu né neinu sem tengist Landnámu, þá bók eigi þjóðin öll saman.

Alvarlegar ásakanir

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður, sendi frá sér pistil í vikunni á vef Vísis þar sem hann ber upp alvarlegar ásakanir á hendur Ásgeiri.

Í pistlinum sakar hann Ásgeir um hugmynda- og ritstuld í nýjustu bók sinni, Eyjan hans Ingólfs.

Í kjölfarið sendi Bergsveinn kæru til siðanefndar Háskóla Íslands vegna málsins og verður hún tekin fyrir á fundi á mánudaginn kemur.

Í samtali við Fréttablaðið í gær sagðist Bergsveinn ætla sjá hvernig málið fari hjá siðanefndinni, áður en hann tekur afstöðu til mögulegrar málshöfðunar.

Ásgeir hafði áður sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann vísaði ásökunum Bergsveins alfarið á bug.