Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, hringdi í Bergsvein Birgisson, rithöfund og fræðimann, eftir að hann ásakaði hann um umfangsmikinn ritstuld í nýútgefinni bók sinni, Eyjan hans Ingólfs, á vef Vísis í gær.

Þetta segir Bergsveinn í samtali við Fréttablaðið. Hann segir ekkert annað hafa komið fram í samtalinu en stendur í yfirlýsingu Ásgeirs sem er opinber.

Þá vilji hann ekki tjá sig um samtalið að öðru leyti.

Ásgeir sendi Vísi yfirlýsingu vegna málsins í gær þar sem hann vísar ásökunum Bergsveins alfarið á bug.

Alvarlegar ásakanir

Bergsveinn greindi frá því í pistli á vef Vísis í gær að um umfangsmikinn ritstuld Ásgeirs væri að ræða í nýútgefinni bók hans, Eyjan hans Ingólfs.

Í pistlinum bar Bergsveinn upp alvarlegar ásakanir í garð Ásgeirs og segir engan vafa leika á því að hann hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók hans, Leitina að svarta víkingnum.

Þá greinir hann einnig frá því að hann hafi meðal annars lagt málið fyrir Siðanefnd Háskóla Íslands til skoðunar.

Mesta martröð einyrkja

Aðspurður segist Bergsveinn hafa fengið jákvæð viðbrögð við pistli sínum.

„Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð vitanlega hjá minni stétt og án þess að ég nafngreini eða tilgreini neitt þá finn ég það mjög sterkt að þetta er dálítið víðtækara vandamál en kristallast í þessu dæmi,“ segir Bergsveinn.

Hann segir málið alvarlegt fyrir einyrkja og rithöfunda, sem lifa á hugmyndum sínum, líkt og hann geri sjálfur.

„Þess vegna bendi ég á að það að það er í raun og veru verið að ræna frá mínum höfuðstól með því ef það er tekið og reifað á öðrum vettvangi og ekki getið um hvaðan það er komið.“

Bergsveinn segir rithöfunda skilja alvarleika málsins og þess vegna fái hann eingöngu einhlít viðbrögð þaðan.

„Þetta er mesta martröð einyrkjans að lenda í þessu.“ segir hann jafnframt.

Bók Ásgeirs Jónssonar.

Grundvallar siðareglur

Bergsveinn segir málið miklu dýpra og alvarlegra en að hægt sé að afgreiða það með afsökunarbeiðni.

„Þetta snýst um grundvallar siðareglur og vinnubrögð sem að leggja öll vísindi og list af velli ef ekki er virkt,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann muni leita réttar síns annars staðar segir Bergsveinn að hann ætli fyrst að sjá hvort Siðanefnd Háskóla Íslands taki málið fyrir og þá hvernig málið fari.

Að sögn Bergsveins muni Siðanefndin reyna vinna málið hratt en að það muni eflaust taka sinn tíma.

Þá muni hann einnig gera grein fyrir málinu í ritrýndu tímariti síðar meir, það muni þó einnig taka sinn tíma.

Bók Bergsveins Birgissonar í íslenskri þýðingu.