Karlmaður hlaut í gær þriggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás gagnvart öðrum manni. Hann hafði þó verið ákærður fyrir líkamsárás og nauðgun, en dómurinn mat þessa meintu nauðgun ekki sem nauðgun heldur hluta af líkamsárásinni.

Manninum var gefið að sök að hafa, þann 19. mars á árið 2020 við Arnarneshæð í Garðabæ, veist að hinum manninum með því að kveikja á kúlublysi og skjóta úr því í áttina að hinum manninum. Síðan á hann að hafa elt hann uppi, ýtt honum í jörðina, haldið honum niðri og síðan nauðgað honum með því að setja fingur í endaþarm hans.

Fyrir vikið hlaut maðurinn opið sár á höfði og yfirborðsáverka á hægri olnboga, þumalfingri vinstri handar, hægra hné og vinstri fæti.

Vinir til margra ára

Svo virðist sem mennirnir tveir hafi verið vinir til margra ára fyrir þessa atburði. Samkvæmt brotaþola höfðu þeir tveir verið í bílskúr eða herbergi heima hjá árásarmanninum kvöldið sem árásin átti sér stað. Brotaþolinn sagðist hafa sofnað heima hjá manninum, en vaknað þegar hann hristi sig. Þá hafi hann haldið á flugeldum og verið ógnandi.

Hann hafi því tekið til fótanna, en maðurinn veitt honum eftirför og skotið flugeldunum í átt að honum. Þá hringdi hann á lögregluna áður en maðurinn réðst á hann.

Árásarmaðurinn sagði brotaþolann hafa gefið sér ofskynjunarlyf. Hann sagðist ekki muna eftir miklu en hefði rankað við sér að veita honum eftirför þar sem hann hafi ætlað að berja hann. Hann mundi þó ekki eftir því að hafa barið hann.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavík.
Fréttablaðið/GVA

Sagði puttann hafa verið í rassi vinarins

Í dómi héraðsdóms er mikið fjallað um það að árásarmaðurinn hafi sett fingur í endaþarm brotaþola. Fyrir dómi voru spilaðar upptökur úr búkmyndavél lögreglu.

„Hrinti mér í jörðina og svo tróð hann hendinni á sér upp í rassinn á mér.“ heyrist brotaþolinn segja í upptökunni og síðan „[S]tinga puttanum á sér upp í rassinn á mér [...] hvað er málið.“

„Á ég að segja þér með þennan putta hérna, veistu hvar  hann var? Hann var upp í rass rass rassgatinu á vini mínum.“ segir árásarmaðurinn í upptökunni. „finnið þið kúkalyktina af [...]?“ á hann jafnframt að hafa sagt.

Í lögregluskýrslu og fyrir dómi gaf hann tvær mismunandi skýringar á þessum orðum sínum. Fyrst sagði hann að hann hafi átt við rass á öðrum vini sínum, og síðan sagðist hann hafa verið að grínast. Dómari mat framburð hans ótrúverðugan.

Ekki nauðgun heldur líkamsárás

Því var það metið sannað að maðurinn hafi sett fingurinn í rass vinar síns. Hins vegar var það ekki metið sem nauðgun þar sem dómari dróg í efa að ásetningurinn hafi verið að fremja kynferðisbrot, heldur að meiða hann.

Það var því frekar metið sem hluti af líkamsárásinni og segir að verknaðurinn hafi verið mjög niðurlægjandi og meiðandi fyrir brotaþolann.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn þriggja mánaða skilorðsbundin dóm og er jafnframt gert að greiða brotaþolanum 500 þúsund krónur.