Ásdís Auðar Ómarsdóttir, íbúi í Kársnesi, hjólar allan ársins hring til vinnu í Síðumúla á rafmagnshjóli. Hún segir ástand göngu- og hjólastíga ekki gott eftir að vegir hafa verið snjóruddir á morgnana.
Eftir standi troðfullir göngustígar og umferðareyjur af snjó og að ómögulegt sé að hjóla þar.
Ásdís vakti athygli á málinu í morgun í Facebook-hópnum Samgönguhjólreiðar. Hún er ekki sú eina sem hefur vakið athygli á málinu en meðlimir hópsins hafa meðal annars velt upp þeirri spurningu hvort hætt sé að ryðja göngustíga í Reykjavík.

Óruddir stígar
Ásdís hjólar yfir göngubrúna við Kringlumýrarbraut og þaðan upp Háaleitisbrautina og svo niður Fellsmúla á leið sinni til vinnu í Síðumúlanum. Hún segir alls staðar þar sem stígar mætast við Háaleitisbrautina annað hvort með öllu órudda eða að ekki hafi verið gengið frá ruðningunum svo þeir endi þvers og kruss fyrir öllu.
Í samtali við Fréttablaðið segist Ásdís tvisvar hafa þurft að fara með hjólið út á götu í morgun, á Bústaðavegi og aftur á Miklubraut, „sem eru náttúrulega alveg hrikaleg gatnamót, svo mikil umferð og hröð og bílstjórar oft ekki að horfa í kringum sig.“ Þá hafi hún þurft að reiða hjólið á mörgum stöðum.
Fékk svar frá borginni
Ásdís segir þetta ekki í fyrsta skipti sem hún eigi í erfiðleikum með að komast til og frá vinnu á hjóli vegna færðar á göngu- og hjólastígum. Hún hafi sent ábendingu, sem Reykjavíkurborg óski sérstaklega eftir, vegna færðar á hjólastígnum við Grensásveg um daginn.
Svarið sem Ásdís fékk frá Reykjavíkurborg vegna málsins var ekki tilkomumikið. „Sæl. Það er erfitt að halda þessum stígum hreinum þar sem götubílar henda alltaf snjó af götum upp á stéttar,“ og var málinu þar með lokið af hálfu borgarinnar.

Þyrfti vitundarvakningu
Ásdís segist hafa verið vonsvikin með svar borgarinnar, „það er svo mikil uppgjöf í þessu svari.“
„Það er ekkert verið að reyna finna lausn á vandamálinu,“ segir Ásdís og bendir á að Reykjavíkurborg þyrfti að vera með vitundarvakningu hjá þeim sem eru að ryðja bæði götur og stíga.
„Mér finnst bara ömurlegt að þurfa fara á bíl eða taka strætó,“ segir Ásdís og bætir við að sleppa bílnum sé það besta sem hún hafi gert fyrir geðheilsuna.
Hún sé miklu sneggri að hjóla til vinnu á góðum degi en að keyra, á góðum degi séu þetta um ellefu mínútur til vinnu á hjóli.
„Ég er á nagladekkjum svo það ekkert mál að hafa hálku – svo lengi sem það er ekki snjór,“ segir Ásdís sem telur mikilvægt að borgin endurskoði vinnulag við snjóruðninga.