Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í komandi sveitarstjórnarkosningum og verða þar með bæjarstjóraefni flokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ásdísi.

Ásdís segir Kópavog í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi og að hana langi til að leggja sitt af mörkum til að tryggja að svo verði áfram. Það hyggst hún gera með því að leggja áherslu á traustan fjárhag, framúrskarandi þjónustu og skýra framtíðarsýn fyrir alla bæjarbúa.

„Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita lipra, sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir ólíkum þörfum fólks, en um leið verðum við að leita allra leiða til að stilla gjöldum og álögum á fólk og fyrirtæki í hóf. Við getum styrkt tekjustofna bæjarfélagsins og fjölgað atvinnutækifærum með því að laða enn frekar til okkar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja. Til þess þurfum við að tryggja að öll stjórnsýsla sé skilvirk og snurðulaus, að erindi séu afgreidd hratt og örugglega og leggja áherslu á að spara fólki sporin með stafrænum lausnum,“ segir Ásdís meðal annars í tilkynningu.

Að sögn Ásdísar eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum og mikilvægt að vanda til verka. Þá vill hún bættar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífstíl í takt við vaxandi bæjarfélag.

Ásdís er með hagfræði- og verkfræðimenntun og víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún er gift Agnari Tómasi Möller, verkfræðingi og saman eiga þau þrjú börn á grunnskólaldri.

„Ég býð fram reynslu mína, þekkingu og styrkleika til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og óska því eftir stuðningi í 1. sæti í prófkjörinu þann 12. mars næstkomandi.“