Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur, sem gegnt hefur stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um tveggja ára skeið, segist hafa sagt upp störfum í Húsi atvinnulífsins sama dag og hún afréð að sækjast eftir oddvitasæti sjálfstæðismanna í Kópavogi og stefna þar með ótrauð og einbeitt á bæjarstjórastólinn í Hamraborg.

Hún var gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannmáli á Hringbraut í gærkvöld og viðurkennir þar að vitaskuld taki hún áhættu með þessu, en kveðst jafnframt sannfærð um að ef hún hefði ekki tekið hana, myndi hún sjálfsagt sjá eftir því um ókomin ár að hafa ekki tekið áskoruninni.

Og hún segist sannfærð um ná árangri og hlakki til verkefna á þessu sviði, ábyrg fjármálastjórn verði leiðarstefið í hennar starfi, nái hún kjöri – og úrbætur í samgöngumálum á forsendum Kópavogsbúa sjálfra verði einnig brýnt kosningamál, fyrir nú utan að auka lífsgæði bæjarbúa á sem flestum sviðum.

Ásdís fer yfir feril sinn í viðtalinu, allt frá fyrstu árunum í Breiðholti og svo í Texas þar sem faðir hennar lagði stund á framhaldsnám til þeirra daga þegar hún rataði menntabrautina sjálf í iðnaðarverkfræði, hagfræði og verðbréfamiðlun, en þess á milli er talað hressilega um pólitík og atvinnulíf og það sem þarf að laga á báðum þeim sviðum.

Hér má sjá byrjun viðtalsins: