Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Kópavogi og Reykjavík eru æfir út í Bjarna Benediktsson og stuðningsmenn hans vegna þess sem þeir kalla bolabrögð.

Í samtali við Fréttablaðið sakaði rótgróinn trúnaðarmaður flokksins Jón Gunnarsson um að hafa gengið fram með ógeðfelldum hætti við að bola 30 fulltrúum úr Kópavogi út af landsfundi á tækniatriði.

Brynjar Níelsson, formaður kjörbréfanefndar, segir ýmis vandamál hafa komið upp varðandi kjörbréf. Verið sé að reyna að leysa úr þeim til að sem flestir verði sáttir. Erfitt sé hins vegar að gera öllum til hæfis.

Einnig hefur verið fullyrt að verið sé að dusta rykið af aflögðum Sjálfstæðisfélögum og kjósa frá þeim fulltrúa andstætt reglum flokksins. Brynjar segir ýmis álitamál vera uppi og tíminn naumur. „Þetta er ekkert nýtt í flokknum í kringum landsfundi og prófkjör,“ segir hann.